Áhrif yfirvinnubanns ljósmæðra – skipulag þjónustu á ljósmæðravakt HSS

MinnismerkiKjaradeila ljósmæðra og ríkisins er verulegt áhyggjuefni stjórnenda og starfsfólks Heilbrigðistofnunar Suðurnesja. Ljóst er að yfirvinnubann Ljósmæðrafélags Íslands mun skapa enn meiri óvissu og óöryggi en nú er, hjá verðandi foreldrum og almennt í samfélaginu. Líkt og áður hefur komið fram hefur skortur á ljósmæðrum í afleysingastöður og fastar stöður valdið því að þjónusta fæðingarhluta ljósmæðravaktar HSS er skert frá og með 6. júlí til og með 6. ágúst 2018. Ljósmæður sinna mæðravernd á dagvinnutíma og göngudeildarþjónustu frá kl 8-22 alla virka daga. Um helgar og helgidaga frá kl 8-22 er ljósmóðir á bakvakt.

Vegna yfirvinnubanns er hætta á að þjónusta ljósmæðra frá 18. júlí til og með 6. ágúst skerðist enn frekar vegna bakvakta og ef ljósmóður vantar á vakt vegna forfalla. Í þeim tilvikum verður sótt um undanþágu frá yfirvinnubanni vegna lágmarksmönnunar og í ljósi þess að þjónusta Landspítala er mikið skert á sama tíma.

Allar verðandi mæður og feður fá upplýsingar um fyrirkomulag þjónustunnar með góðum fyrirvara, sér í lagi þær sem eru gengnar 35 vikur og meira.

Frá og með 7. ágúst var áætlað að halda úti venjubundinni þjónustu á ljósmæðravakt HSS en vegna sumarfría og manneklu vantar ennþá á fjölmargar vaktir út ágúst sem manna átti með aukavöktum.. Ljósmóðir er á vakt frá kl 16-08 alla daga. Ef til veikinda kemur á þeim tíma verður reynt að fá undanþágu frá yfirvinnubanni ljósmæðra að öðrum kosti verður að loka deildinni þann tíma sem ekki tekst að manna hana og vísa mæðrum á Landspítalann.

Frá 1. september n.k. hafa 4 ljósmæður sagt starfi sínu lausu á ljósmæðravakt HSS og í mæðravernd heilsugæslu Grindavíkur. Ljóst er að staðan er grafalvarleg þar sem HSS mun ekki geta sinnt fæðingarþjónustu né sængurlegu ef til þessara uppsagna kemur. Við lýsum einnig yfir miklum áhyggjum yfir því ástandi sem upp er komið á Landspítala sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir  fæðingarþjónustu á landsvísu.

Skortur á ljósmæðrum, læknum og hjúkrunarfræðingum er mikill vandi sem fer vaxandi víða um land. Þann vanda þarf að leysa skipulega með aðstoð ráðamanna því ef ekkert er að gert stefnir í algert óefni sem erfitt verður að vinda ofan af.

Þjónusta HSS við verðandi mæður er nú þegar löskuð vegna manneklu. Yfirvinnubann og uppsagnir ljósmæðranna gætu takmarkað þá þjónustu enn frekar.

Stjórnendur leggja mikla áherslu á það að báðir aðilar sem eiga aðild að deilunni gangi að sáttarborði til að tryggja þjónustuna og koma í veg fyrir flótta fagfólks.