Barn í vændum og hvað svo?

Reykjanesbæ, 4. nóvember 2010

Barn í vændum og hvað svo?

Opið bréf til forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, landlæknis og stjórnenda heilbrigðisstofnana

Kæru ráðherrar, landlæknir og stjórnendur heilbrigðisstofnana

Undanfarið hefur mikið farið fyrir umræðu um niðurskurð í heilbrigðismálum, sem virðist vera óumflýjanlegur vegna fjárhagsvanda íslenska ríkisins. Fjárlög hafa verið lögð fram til umræðu, en miðað við það fé sem til skiptanna er bendir allt til að almenn sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni muni leggjast að mestu leyti af, nema á Akureyri, Akranesi og í Reykjavík. Á það ekki síst við um þjónustu við fæðandi konur og fjölskyldur þeirra, þar sem niðurskurðurinn mun bitna á þeim enn frekar en orðið er.

Markvisst hefur verið unnið að því með breytingum á heilbrigðislögum að færa þjónustu fæðandi kvenna frá landsbyggðinni á fáar stórar fæðingardeildir, þar sem litið hefur verið svo á að „öll þjónusta“ sé fyrir hendi.  Þó er enn til staðar fæðingarþjónusta á svokölluðum D-heilbrigðisstofnunum, en óvíst að svo verði áfram (Landlæknisembættið, 2007).

Við sem þetta skrifum höfum starfað sem ljósmæður í um og yfir 30 ár á notalegri fæðingardeild, sem til skamms tíma var sú þriðja stærsta á landinu, en er nú flokkuð sem D-staður. Þar hafa konur haft möguleika á að fæða börnin sín í heimabyggð með ástvini sína hjá sér. Samkvæmt leiðbeiningum frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni WHO er einmitt lagt til að konur fæði þar sem þær upplifi sig öruggar og umhverfið henti þörfum þeirra. Fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu getur slíkur staður verið heimili þeirra, lítil fæðingarheimili eða fæðingardeildir á stórum sjúkrahúsum. En umfram allt þarf staðurinn að falla að hugmyndum konunnar um fæðingu, vellíðan og öryggi og eins nálægt heimili hennar og menningu og unnt er (World Health Organization, 1996).

Í reglugerð um heilsugæslustöðvar (Stjórnartíðindi, 2007) er mæðravernd talin til grunnþjónustu og mun því væntanlega verða áfram til staðar á heilsugæslustöðvum landsins á virkum dögum frá klukkan 8:00 – 16:00. Hins vegar verður ekki það sama sagt um fæðingar og þjónustu við fjölskyldurnar þegar að fjölguninni kemur. Við, sem starfandi ljósmæður, vitum að rétt eins og að börn eru ekki bara getin á dagvinnutíma, fæðast þau heldur ekki eingöngu á þeim tíma. Þörfin fyrir þjónustu ljósmæðra úti á landi á öllum tímum sólarhringsins hverfur ekki þó ljósmæður verði ekki til staðar til að sinna konunum. Hins vegar má búast við því að verðandi foreldrar upplifi óöryggi í tengslum við barnsburðinn, sem bitnað getur á heilsu þeirra og líðan við fæðinguna. En vanlíðan og streita getur lengt fæðinguna og orsakað inngrip í hana sem annars hefði ekki þurft (World Health Organization, 1996).

Ljósmæður hafa sérþekkingu til að sinna konum og fjölskyldum þeirra í eðlilegri meðgöngu, fæðingu og að henni lokinni. Í fyrrnefndri skýrslu frá WHO kemur fram að ljósmæður eru besti  og hagkvæmasti kosturinn sem völ er á til að sinna konum á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu (World Health Organization, 1996). Í könnun á kostnaði við fæðingarþjónustu í Kanada kom fram að verulegur sparnaður náðist við hverja fæðingu þegar konur nutu umsjár ljósmæðra á meðgöngu og í fæðingu (O´Brien o.fl., 2010).  Að velja ljósmæðrarekna fæðingarþjónustu fyrir heilbrigðar konur er hagkvæmur kostur eins og bent hefur verið á og enn fremur hefur komið fram í skýrslu frá Ljósmæðrafélagi Íslands (2010) um barneignarþjónustu á Íslandi.

Hér að framan hafa stuttlega verið nefndar ástæður fyrir eflingu ljósmæðraþjónustu á Íslandi og hvernig má laga hana að breyttum efnahagsaðstæðum í landinu, án þess að loka litlum vel reknum fæðingarstöðum. Vissulega þurfum við á því að halda að konur í áhættumeðgöngu fái þjónustu við hæfi fyrir sig og fjölskyldur sínar, en við þurfum líka hagkvæma, notalega þjónustu í umhverfi sem hentar konum sem vilja og geta fætt utan hátækni sjúkrahúsa. Slíka þjónustu geta ljósmæður landsins veitt og myndi spara bæði tíma, fé og fyrirhöfn jafnt hjá fjölskyldum sem og hjá þeim sem halda um fjármál ríkisins.

Uppstokkun fæðingarþjónustunnar þarf að ná til allra fæðingarstaða og vinna skipulagið samkvæmt þeim bestu rannsóknum og upplýsingum, innlendum og erlendum sem völ er á. Aðeins á þann hátt er hægt að ná fram raunverulegum sparnaði í fæðingarþjónustunni, sem ekki bitnar  á öryggi eða heilbrigði kvenna og barna þeirra við fæðingu.

Með vinsemd,

Guðrún Guðbjartsdóttir, ljómóðir

Björg Sigurðardóttir, ljósmóðir

Um okkur
Við erum báðar ljósmæður við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Heimildir
O´Brien, B., Harvey, S., Sommerfeldt, S., Beischel, S., Newburn-Cook, C., Schopflocher, D. (2010). "Comparison of costs and associated outcomes between women choosing newly integrated autonomous midwifery care and matched controls: a pilot study". Í Journal of obstetric  and gynaecoloy Canada. Sótt 3. Nóvember 2010 af http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20707953

Landlæknisembættið. (2007). "Leiðbeiningar um val á fæðingarstað".  Sótt 3. nóvember 2010 af http://www.landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3304

Ljósmæðrafélag Íslands.(2010). "Barneignarþjónusta á Íslandi. Uppbygging og framtíðarsýn á breytingartímum".

Stjórnartíðindi. (2007). "Reglugerð um heilsugæslustöðvar". Í Reglugerðarsafn Stjórnarráðsins.  Sótt 4. nóvember af http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/787-2007

World Health Organizaton. (1996). "Save motherhood. Care in normal birth: a pracitical guide". Sótt 3. nóvember af http://whqlibdoc.who.int/hq/1996/WHO_FRH_MSM_96.24.pdf

 

Síðast uppfært mánudagur, 25 Maí 2015 13:21