Læknaritarar

Starfsvettvangur læknaritara er á heilbrigðisstofnunum og stofnunum hins opinbera er fara með stjórnunarmál á heilbrigðissviði.  Þeir annast ritun, skýrslugerð og hafa umsjón með öllum gögnum er varða sjúklinga og meðferð þeirra svo og annarra aðila er til heilbrigðisstofnana leita, skv. nánari fyrirmælum lækna og undir handleiðslu og á ábyrgð þeirra.  Í þessu starfi er lögð mikil áhersla á þagnarskyldu og er það eitt af skilyrðum þess að löggilding þessa starfs er veitt af Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu.

Frá haustinu 1992 hefur Fjölbrautaskólinn við Ármúla einn skóla séð um menntun læknaritara.  Námið veitir lögvernduð réttindi til starfsheitisins læknaritari, skv.reglugerð Heilbrigðisráðuneytisins.  Til að hefja nám á læknaritarabraut er krafist stútentsprófs eða sambærilegrar menntunar og starfsreynslu.  Góð kunnátta í íslensku og ensku er nauðsynleg sem, færni í vélritun og tölvuþekking.  Nám í læknaritun er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Almennt um deildina:
Deildarstjóri er Ásdís M. Sigurðardóttir.
Deildin er staðsett á fyrstu hæð í D-álmu stofnunarinnar.
Deildin sinnir allri læknaritvinnslu fyrir alla heimilislækna og aðra sérfræðinga sjúkrahúss og heilsugæslu.

Skjólstæðingum HSS, sem þurfa að hafa samband við læknaritara, er vinsamlegast bent á að senda tölvupóst á laeknaritarar@hss.is eða hringja í skiptiborð í síma 422-0500 og biðja um viðtal ef afgreiðslan getur ekki leyst úr vandanum. 

Læknaritarar liggja ekki með nein vottorð sem læknar eru búnir að ljúka við og öll umbeðin gögn má nálgast í afgreiðslu HSS gegn framvísun skilríkja.

alt

Starfsemi/hlutverk:
Almenn læknaritarastörf fyrir legudeildir sjúkrahússins, heilsugæslu svo og þjónustudeildir svo sem röntgendeild, slysadeild o.fl.  Einnig læknaritun fyrir stofumóttökur allra sérfræðinga sjúkrahússins, skráning sjúkdóma og aðgerða.  Ritun og frágangur á hinum ýmsu vottorðum og pappírum til sjúklinga, tryggingafélaga, Tryggingastofnunar, lögfræðinga og annarra opinberra aðila.
Frágangur dánarvottorða.  Læknaritarar þurfa oft að greiða úr hinum ýmsu vandamálum sem upp kunna að koma hjá sjúklingum, en þeir eru tengiliðir milli lækna og sjúklinga.

Læknaritarar hafa yfirumsjón, með sjúkraskrám og sjúkraskrárgeymslum og öllum gögnum varðandi sjúklinga.  Þeir sjá einnig um  ýmis konar skýrslur og bréfaskriftir fyrir lækna stofnunarinnar og aðra.
Læknaritarar starfa mikið sjálfstætt en þó aðallega skv. fyrirmælum lækna.

Síðast uppfært mánudagur, 25 Maí 2015 13:36