Ljósmæðravakt fékk samfellur að gjöf

samfellur19 1

Það sýndi sig enn og aftur á dögunum hvað ljósmæðravakt HSS á góða að í samfélaginu hér syðra. Þá kom hópur fólks færandi hendi með samfellur handa nýburum sem fæðast á deildinni.

Um var að ræða samstarfsverkefni hjá Samvinnu - starfsendurhæfingu hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Virk starfsendurhæfingarsjóði, Lindex, Nettó og Reykjanesapóteki.

Hugmyndin fæddist, ef svo má segja, í hópastarfi Samvinnu á vegum VIRK, en þar var ákveðið að gefa ljósmæðravaktinni 150 samfellur með myndskreytingu eftir eina úr hópnum.

Lindex lagði þeim svo til samfellurnar, sem eru úr lífrænni bómull, og auk þess styrktu Nettó og Reykjanesapótek við verkefnið.

Við afhendinguna þakkaði Jónína Birgisdóttir, deildarstjóri ljósmæðravaktarinnar, innilega fyrir gjöfina sem mun vafalaust koma að góðum notum, en foreldrar munu fá að taka samfelluna með sér heim að lokinni legu.

Fulltrúar Lindex á Íslandi bættu einnig um betur og gáfu fyrirheit um að styrkja deildina enn frekar á næstunni með fatagjöfum.

Starfsfólk og stjórnendur HSS þakka að sjálfsögðu kærlega fyrir gjafirnar og hlýhuginn sem þeim fylgja.

samfellur19 2