1.100 milljónir til uppbyggingar á innviðum heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum

Nýútkomið frumvarp til fjárlaga næsta árs kveður á um að ný heilsugæslustöð muni rísa í Reykjanesbæ og er ráðgert að framkvæmdum ljúki árið 2023. Áætlaður heildarkostnaður er 700 m.kr. og verkefnið verður þá á höndum Framkvæmdasýslu ríkisins. Staðsetning fyrirhugaðrar stöðvar liggur ekki fyrir að svo stöddu, en framkvæmdastjórn HSS lagði til að henni yrði fundinn staður í Innri Njarðvík, en það einnig hentug staðsetning til að þjónusta skjólstæðinga HSS í Vogum.

Þetta kemur til viðbótar við þær 400 m.kr. sem stjórnvöld hafa þegar ráðstafað til nýrrar slysa- og bráðamóttöku á HSS. Áætlanir gera ráð fyrir að flytja slysa- og bráðamóttöku, sem og röntgendeild, frá núverandi stað í gömlu sjúkrahúsbyggingunni yfir á jarðhæð D-álmunnar. Með því mun heildarrými slysadeildarinnar um það bil þrefaldast og miðað er að því að öll aðstaða fyrir skjólstæðinga og starfsfólk verði eins og best verður á kosið. Gert er ráð fyrir að þær framkvæmdir hefjist á næsta ári og munu Ríkiseignir sjá um verkið.

Þetta er sannarlega ánægjulegt, en starfsfólk og stjórnendur HSS hafa undanfarið verið að róa öllum árum í þá átt að efla þjónustuna. Ein af forsendum þess er að byggja upp húsnæði stofnunarinnar, sem hefur ekki tekið mið af stigmagnandi þjónustuþörf á Suðurnesjum í kjölfar mikillar íbúafjölgunar.

Heilsugæslan í Reykjanesbæ er nú ein fjölmennasta heilsugæslustöð landsins með um 21 þúsund skráða skjólstæðinga og hefur komufjöldi aukist ár frá ári. Einnig hafa verið um eða yfir 13 þúsund komur árlega á slysa- og bráðamóttöku HSS. Þörf er á enn frekari aukningu í þjónustu, en aðstöðuleysi hefur staðið okkur fyrir þrifum.

„Þetta eru stór skref rétta átt, en við ætlum að halda áfram og klára þá uppbyggingu sem nauðsynleg er til að mæta þörfum Suðurnesjabúa fyrir heilbrigðisþjónustu í heimabyggð,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS.

„Þessi áfangi hefur náðst með miklum stuðningi frá fjölmörgum, ekki síst íbúum svæðisins, sveitarstjórnarfólki, heilbrigðisráðuneytinu og sjálfu Alþingi. Við þökkum fyrir þennan mikla meðbyr sem við höfum fengið í okkar viðleitni til að byggja upp starfsemi HSS til framtíðar. Jafnframt vonumst við til þess að fá áframhaldandi stuðning allra til að halda áfram með uppbygginguna á komandi misserum.“

Síðast uppfært fimmtudagur, 15 október 2020 10:39