Inflúensubólusetning er líka fyrir börn

Bolusetning bornVissir þú að inflúensubólusetningu má gefa frá 6 mánaða aldri?

Inflúensubólusetning er sérstaklega mikilvæg börnum með undirliggjandi áhættuþætti eins og króníska lungnasjúkdóma (t.d astma og endurteknar lungnabólgur) en einnig börn með hjartasjúkdóma og galla í ónæmiskerfi.

Ef einhverjar spurningar vakna er sjálfsagt að ræða við lækni eða hjúkrunarfræðing hér á HSS.

Hægt er að bóka í inflúensubólusetningu í síma 420-0500 og á heilsuveru.is

Sólarhringsþjónusta á virkum dögum á ljósmæðravakt HSS

Sólarhringsþjónusta verður aftur í boði á virkum dögum á Ljósmæðravakt HSS frá og með deginum í dag.

Um helgar verður þjónusta enn um sinn á milli 8 og 16.

Við viljum benda konum sem þurfa á aðstoð eða ráðgjöf að halda á lokunartíma, að leita á kvennadeild Landspítalans í síma 543 1000 eða slysa og bráðamóttöku HSS í gegnum neyðarlínuna í síma 112.

Góðar gjafir frá lögreglufólki á Suðurnesjum

Enn og aftur sannast að HSS á sér öfluga bakhjarla á Suðurnesjum þar sem heilsugæslunni barst fyrir helgi höfðingleg gjöf frá starfamannafélagi Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Um er að ræða þrjár Lenovo-spjaldtölvur í hulstrum, sem ætlaðar eru til að stytta börnum stundir.

Gjöfin var keypt fyrir fjármuni sem söfnuðust á páskabingói sem haldið var fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra.

Starfsfólk og stjórnendur HSS þakka lögreglufólki og fjölskyldum þeirra innilega fyrir gjöfina sem mun nýtast yngstu skjólstæðingum stofnunarinnar vel.

Forstjórapistill: Af málefnum skurðstofa HSS

skurdstofurEins og starfsfólk HSS og íbúar Suðurnesja vita, var skurðstofustarfsemi HSS lögð af fyrir um áratug síðan. Á síðustu árum hefur stofnunin haft tekjur af útleigu á annarri skurðstofunni en hefur einnig þurft að taka á sig viðbótarkostnað á móti.

Nú er svo komið að ef ætlunin væri að halda starfsemi á skurðstofum gangandi, hvort sem það væri á vegum HSS, Landspítala eða aðila í einkarekstri eins og nú er, þyrfti að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar við að uppfæra nauðsynlegan tækjabúnað.

Slíka fjármuni á HSS ekki til.

Gerðar voru athuganir á því hvort fýsilegt væri að uppfæra búnað skurðstofanna með það fyrir augum að nýta þær fyrir Landspítala. Þá kæmu áhafnir frá LSH til okkar til að framkvæma svokallaðar dagaðgerðir. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að það reyndist ekki vera fýsilegt.

Þá var einnig athugað hvort Landspítali gæti nýtt eitthvað af tækjabúnaði skurðstofanna hjá sér og það reyndist heldur ekki vera.

Við munum hins vegar athuga hvort búnaðurinn gæti nýst okkur á öðrum stöðum í húsinu og loks verður athugað hvort aðrar heilbrigðisstofnanir geti nýtt eitthvað af honum.

Þannig er ljóst að skurðstofurnar verða ekki notaðar sem slíkar um fyrirsjáanlega hríð og heilbrigðisráðherra hefur því samþykkt að skurðstofurnar verði teknar niður.

Reiknað er með að síðustu skurðaðgerðirnar á HSS verði gerðar nú í lok nóvember næstkomandi.

Hins vegar eru mikil not fyrir það rými sem er nú undir skurðstofurnar, enda hefur húsnæðisskortur þrengt verulega að grunnstarfsemi HSS, heilsugæslu og bráðamóttöku, síðustu ár.

Við fulltrúar HSS áttum fund með Ríkiseignum í gær, fimmtudag, um framtíðarsýn húsnæðismála og næstu skref verða þau að húsnæðisnefndin hér innanhúss mun vinna málið áfram með aðkomu Ríkiseigna og þeirra deilda sem breytingarnar taka til.

Að fengnum niðurstöðum nefndarinnar munum við ráða arkitekt til að fullmóta tillögur sem við leggjum til við Ríkiseignir, sem mun bera bróðurpartinn af fyrirhuguðum kostnaði við endurbæturnar.

Það er ljóst að mörgum mun finnast sjónarsviptir af því að leggja skurðstofurnar alfarið niður, en takmark stjórnenda og starfsfólks HSS verður að vera að standa vörð um grunnþjónustuna við íbúa, heilsugæsluna og bráðamóttökuna og þar eru húsnæðismálin okkar helsta áskorun.

Bæði er það með beinum hætti, þar sem vöxturinn í þjónustuþörf á svæðinu hefur sprengt núverandi húsnæði utan af sér, og ekki síður með óbeinum hætti þar sem aðstaða og góður húsakostur er lykilatriði í að bæta fleira fagfólki við okkar góða hóp og bæta þjónustu við Suðurnesjafólk og gesti okkar.

Það er mín von að þessar aðgerðir muni loks höggva á hnútinn sem hefur haldið aftur af HSS í hartnær áratug og að innan tíðar verði hægt að sjá merkjanlegan mun á þeirri þjónustu sem við á HSS getum veitt hér í heimabyggð.

Með bestu kveðjum
Markús Ingólfur Eiríksson
Forstjóri HSS

Tímabundið skert þjónusta á Ljósmæðravakt HSS

HSS þykir leitt að tilkynna að vegna óviðráðanlega aðstæðna og manneklu á Ljósmæðravakt getum við ekki haft deildina opna á næturnar frá og með deginum í dag, 13. september og til mánaðarloka hið minnsta.

Við viljum benda konum sem þurfa á aðstoð eða ráðgjöf að halda á lokunartíma, að leita á kvennadeild Landspítalans í síma 543 1000 eða slysa og bráðamóttöku HSS í gegnum neyðarlínuna í síma 112.

Lokun verður 13. september fram að lokum mánaðarins :

Á virkum dögum  frá 00.00 til 8.00

Um helgar frá kl. 20.00 til 8.00

ATH - Þjónusta deildarinnar verður annars með óbreyttu sniði

Forstjóri HSS: Aðgerða er þörf í húsnæðismálum

HSS Markus pontu netSvandís Svavardóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýsamþykkta heilbrigðisstefnu fyrir Ísland á opnum fundi á HSS í vikunni. Á fundinum sagði Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, að stefnan markaði tímamót í heilbrigðismálum hér á landi, en ýmislegt væri enn ógert til að svara kröfum almennings um heilbrigðisþjónustu.
 
„Eitt lykilatriði í að vinna eftir heilbrigðisstefnunni er að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.“
 
Markús sagði lýðheilsuvísa sýna glöggt að hvergi sé eins mikil þörf fyrir öfluga heilsugæsluþjónustu og einmitt hér á Suðurnesjum. Þá skjóti skökku við að ekki hafi verið tekið tillit til mikillar íbúafjölgunar á svæðinu, sem hafi aukið álag á stofnunina, bæði hvað varðar húsnæði og mönnun. Hvað varðar það síðarnefnda skiptir miklu að geta boðið upp á gott og aðlaðandi starfsumhverfi til að laða að fólk, en staðreyndin sé að HSS er í mikilli samkeppni við aðrar stofnanir í þeim efnum.
 
Starfsfólkið, sem sé sannarlega fáliðað og undir miklu álagi, hafi þó gert sitt besta í erfiðum aðstæðum, en eftir standi að íbúar í samfélaginu séu ekki ánægðir með þjónustuna og eitt af helstu vandamálunum sé ímyndarvandi. Nú sé þó verið að vinna í því að bæta bæði þjónustu og ímynd HSS.
 
„Við ætlum okkur að gera betur og við sjáum nú þegar mörg jákvæð teikn á lofti. Við erum með ungt, kraftmikið og vel menntað starfsfólk og erum að þróa breytt verklag á heilsugæslunni, meðal annars með bættum rafrænum lausnum, aukinni teymisvinnu og samskiptum við félagsþjónustu sveitarfélaganna á svæðinu.“
 
HSS fundur stefna salur netHúsnæðisumbætur á HSS eru að sögn Markúsar algjört lykilatriði þegar horft er fram á veginn.
 
„Við þurfum að fara út í endurbætur og þar er auðvitað nauðsynlegt að hafa skýra langtímahugsun í þeim efnum, en það er engin spurning að aðgerða er þörf strax.“ 
 
Myndir/Heilbrigðisráðuneytið

Kvenfélag Grindavíkur gaf Ljósmæðravaktinni hjartsláttarrita

fosturriti Kvenfel GriLjósmæðravaktin á HSS fékk sannarlega veglega gjöf á dögunum þegar fulltrúar frá Kvenfélagi Grindavíkur afhentu deildinni fósturhjartsláttarita að verðmæti 1.500.000 króna.

Tækið mælir hjartslátt fósturs sem og tíðni og lengd samdrátta hjá móður og kemur í stað tækis sem hefur verið notað í 25 ár.

Við afhendinguna þakkaði Jónína Birgisdóttir yfirljósmóðir innilega fyrir gjöfina. 

„Við ljósmæður viljum þakka fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem seint verður fullþakkað. Okkur þykir mjög vænt um að Kvenfélag Grindavíkur sé að styðja svo vel við Ljósmæðravaktina.“

Jónína bætir því við að með þessu nýja tæki sé ljósmæðravaktin að færast yfir í nútímann. Tækið tengist við tölvu og getur vistað ritin rafrænt, sem er bæði umhverfisvænt með því að spara pappírsnotkun, en býður einnig upp á bætta þjónustu við skjólstæðinga deildarinnar. 

Með því að hafa ritin rafræn er hægt að senda hjartsláttarrit rafrænt til frekari skoðunar hjá sérfræðingum á kvennadeild LSH. Tækið er ekki aðeins notað í fæðingum heldur líka á meðgöngunni, t.d. fyrir konur sem eru með einhverja áhættuþætti á meðgöngu.

Lýðheilsuvísar kynntir í Hljómahöll

lydheilsuvisarHSS2019net

Embætti landlæknis stóð fyrir kynningu á nýjum lýðheilsuvísum fyrir Ísland, eftir heilbrigðisumdæmum, í Hljómahöll í Reykjanesbæ í gær.

Alma Möller landlæknir og fleiri sérfræðingar fóru yfir stöðuna, en Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, var fundarstjóri.

Fundurinn var fjölsóttur og kynntir voru margskonar vísar og mikilvægi þeirra fyrir stefnumótun í heilbrigðis- og lýðheilsumálum. Meðal annars kom fram að Suðurnes stendur misvel að vígi í vísunum.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, var meðal ræðumanna og sagði að hér á svæðinu væri sannarlega verk að vinna en margvísleg verkefni séu þegar farin af stað með góðum árangri og ýmislegt annað sé í burðarliðnum. Þar sé lykilatriði að hafa aðgang að lýðheilsuvísunum til að vinnan verði markvissari.

„Það var ánægjulegt að fá að koma að þessari kynningu og margt fróðlegt sem þarna kom fram,“ sagði Markús að fundi loknum. „Lýðheilsuvísar eru mikilvægt tól til að vinna að heilbrigðara samfélagi í sem víðustum skilningi. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur þar ríku hlutverki að gegna í samvinnu við sveitarfélög, stjórnvöld og almenning á Suðurnesjum.“

Mælaborð Lýðheilsuvísa má finna hér.

Háls-, nef- og eyrnalæknar á HSS á ný

HNE HSSnet

Það er ánægjulegt að segja frá því að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja býður nú aftur upp á þjónustu háls-, nef- og eyrnalækna í Reykjanesbæ.

Þrír sérfræðingar, Stefán Eggertsson, Sigurður Torfi Grétarsson og Kristján Guðmundsson, skipta með sér dögum en gert er ráð fyrir að þeir séu með móttöku tvo daga í viku.

Tekið er á móti tímabókunum í afgreiðslu HSS, í síma 422-0500.

Rétt er að minna á að börn þurfa tilvísun frá heilsugæslulækni til að sleppa við að greiða komugjald til sérfræðinga.

Subscribe to this RSS feed