Ljósmæðravaktin fékk fallegar myndir að gjöf

Ljósmæðravakt HSS fékk góða gjöf á dögunum þar sem ljósmyndarinn Heiðbrá Rósa Steinþórsdóttir færði deildinni sjö fallegar myndir af hvítvoðungum, sem munu prýða veggi deildarinnar.

Heiðbrá rekur ljósmyndastofuna Heiðbrá Photography en margar myndanna sem hún gaf deildinni eru einmitt af börnum sem fæddust á HSS, eða hafa verið þar í eftirliti.

Starfsfólk ljósmæðravaktarinnar þakkar kærlega fyrir gjöfina og þann hlýhug sem hanni fylgir. Myndirnar munu svo gleðja skjólstæðinga stofnunarinnar um ókomin ár.

Tilraunaverkefni um vinnufyrirkomulag hjúkrunarfræðinga framlengt

Nýjasti stofnanasamningur hjúkrunarfræðinga á HSS felur meðal annars í sér tilraunaverkefni til sex mánaða sem miðar að því að auka fast starfshlutfall hjúkrunarfræðinga og draga úr óreglulegri yfirvinnu. 

Verkefnið hefur gengið afar vel hingað til þannig að ákveðið var að framlengja það út september 2019. Ef það skilar tilætluðum árangri þá mun þetta ákvæði gilda áfram.

Við hvetjum hjúkrunarfræðinga til að kynna sér stofnanasamning HSS og FÍH og hvað felst í tilraunaverkefninu. Um þessar mundir eru margar og fjölbreyttar stöður hjúkrunarfræðinga lausar til umsóknar á HSS. Frekari upplýsingar má finna hér á vef HSS undir „Laus störf“.

Mislingabólusetningar á HSS á morgun og laugardag

Ljóst er að HSS mun fá um 800 skammta af bóluefni gegn mislingum og mun bólusetning hefjast á morgun, föstudaginn 15. mars.

Samkvæmt ákvörðun sóttvarnalæknis hjá Embætti landlæknis, skal bólusetja þá sem eru óbólusettir á aldrinum 12 mánaða til 49 ára, bóluefnið er þeim að kostnaðarlausu, en fullorðnir greiða fyrir komugjald.

Tímabókanir á heilsugæsluna í Reykjanesbæ fara fram á heilsuveru.is en einnig er hægt að bóka tíma í síma 422-0500. Vinsamlegast notið frekar tímabókun í Heilsuveru til að minnka álag á símkerfi stofnunarinnar.

Tímabókanir á heilsugæsluna í Grindavík fara fram í síma 422-0750 milli kl 8-15 alla virka daga. Ekki er verið að bólusetja þar um helgina.

Í fyrstu verður boðið upp á bólusetningar á morgun milli kl 13-16 og á laugardeginum 16. mars kl 9-12 og 13-16.

Þeir aðilar sem hafa fengið eina bólusetningu eða eru eldri en 49 ára (fæddir fyrir 1970) eru ekki í forgangshópi og fá því ekki bólusetningu að sinni.

Ónæmisbældir einstaklingar þurfa að ráðfæra sig við sérfræðilækni sinn til að meta hvort viðkomandi eigi að fá bólusetningu en öllu jöfnu er reynt að forðast að gefa ónæmisbældum mislingasprautu.

Við minnum á að það hefur enginn á Suðurnesjum greinst með mislinga.

Ekki boð um bólusetningar um sinn utan höfuðborgarsvæðis og Austurlands

Athygli er vakin á því að boð sóttvarnarlæknis um bólusetningu gegn mislingum fyrir óbólusetta einstaklinga gildir eingöngu fyrir einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi, en ekki á Suðurnesjum í bili.

Íbúar Suðurnesja, sérstaklega foreldrar óbólusettra barna, eru þó hvattir til að fylgjast með þróun mála hér á vef HSS, Facebook-síðu stofnunarinnar og vef Embættis landlæknis.

Einnig getur fólk hringt í síma 1700 og fengið ráðleggingar.

Til hvaða ráðstafana er verið að grípa til á Íslandi gegn mislingum?

BoluefniVegna frétta um mislingasmit á Íslandi og allnokkurra fyrirspurna til heilsugæslu HSS er rétt að vekja athygli á eftirfarandi frétt af vef Embættis landlæknis

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hafa fjórir einstaklingar greinst með mislinga á Íslandi á þessu ári, tveir fullorðnir og tvö börn og heilsast öllum vel. Allir einstaklingarnir voru óbólusettir eftir því sem best er vitað og smituðust allir í flugi Air Iceland Connect þann 15.2.2019. Þetta sýnir að mislingar eru mjög smitandi og smitast auðveldlega á milli einstaklinga við litla snertingu.

Sóttvarnalæknir, í samvinnu við heilsugæsluna, Landspítala, Læknavaktina og fleiri aðila, hefur unnið að eftirfarandi sóttvarnaráðstöfunum sem miða að því að hindra frekari dreifingu sýkingarinnar:

  1. Sóttkví. Allir einstaklingar sem eru óbólusettir og komist hafa í snertingu við mislingasmit eru beðnir um að halda sig heima frá degi 6 til dags 21 eftir smit. Á þessum tíma geta veikindi komið fram og eru einstaklingar þá smitandi og verða reyndar smitandi um einum sólahring áður en veikindin byrja. Ekki þarf að setja bólusetta einstaklinga í sóttkví.
  2. Bólusetning gegn mislingum. Ef einstaklingur sem verður fyrir smiti er bólusettur innan 72 klst. frá smiti þá eru góðar líkur á því að einstaklingurinn veikist ekki.
    Mælt er með bólusetningu óbólusettra fjölskyldumeðlima þeirra sem komast í snertingu við mislingasmit því það mun koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu. 
    Bólusetningu má gefa börnum allt niður í 6 mánaða aldur en árangurinn er ekki alveg ótvíræður á aldrinum 6–12 mánaða og þarf því að bólusetja þessi börn aftur við 18 mánaða aldur.
  3. Meðhöndlun veikra. Ef einstaklingar telja sig eða börn sín geta verið veik af mislingum þá er fólk beðið um að koma ekki beint á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús heldur hafa fyrst samband símleiðis í síma 1700 eða við sína heilsugæslustöð. Þar fær fólk ráðleggingar og mun sjá um að senda lækni heim til viðkomandi ef ástæða þykir til, til að greina og staðfesta sýkinguna. Einnig verður hægt að senda viðkomandi á sjúkrahús til meðferðar samkvæmt fyrirfram ákveðnum leiðbeiningum sem gefnar verða.
  4. Upplýsingar um mislinga og mislingasmit. Til að fá upplýsingar um mislinga og mislingasmit má hringja í síma 1700 og einnig til heilsugæslustöðva.

Sóttvarnalæknir telur litlar líkur á útbreiddum faraldri hér á landi ef öllum ofangreindum varúðarráðstöfunum verður fylgt. Að auki er rétt að benda á að almenn þátttaka í bólusetningum hér á landi er um 90−95% sem á að duga til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur.

Dagur heyrnar - Hugum að heyrnarheilsu

HeyrnDagur heyrnar er haldinn hátíðlegur í dag 4. mars, í samvinnu Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands og Heyrnarhjálpar - Félags heyrnarskertra á Íslandi.

Dagurinn tengist alþjóðlegum degi heyrnar sem Alþjóða Heilbrigðisstofnunin stendur árlega fyrir, World Hearing Day.

Þema dagsins í ár er „Mælum heyrnina“, sem er hvatning til fólks að láta fylgjast með heyrnarheilsu sinni og barna sinna.

Á heilsugæslu HSS er hægt að bóka tíma í heyrnarmælingu í samráði við starfsfólk.

Frekari upplýsingar má fá í síma 422-0500.

Halldór kvaddi starfsfólk HSS

Halldór Jónsson lét í dag af störfum sem forstjóri HSS eftir rúmlega fimm ára starf. 

Af því tilefni bauð hann til kaffisamsætis fyrir starfsfólk í fundarsal þar sem hann kvaddi og þakkaði fyrir gott samstarf á liðnum árum. 

Halldóri er þakkað fyrir góð störf í þágu stofnunarinnar og óskað velfarnaðar í framtíðarstörfum. 

Við starfi forstjóra HSS tekur Markús Ingólfur Eiríksson. 

Markús Ingólfur Eiríksson verður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Markús Ingólf Eiríksson forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að undangengnu mati lögskipaðrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. Skipað er í embættið til fimm ára, frá 1. mars næstkomandi.

Markús er með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og doktorspróf í endurskoðun með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja. Hann hefur frá árinu 2016 starfað hjá Ríkisendurskoðun sem sérfræðingur á stjórnsýslusviði. Áður starfaði hann hjá Ernst & Young Reykjavík, fyrst sem sérfræðingur í endurskoðun en síðan sem verkefnastjóri.

Í niðurstöðum hæfnisnefndar segir að Markús hafi yfirgripsmikla þekkingu á stjórnsýslu. Hann hafi í starfi sínu hjá Ríkisendurskoðun unnið að stjórnsýsluúttektum sem m.a. tengjast heilbrigðisþjónustunni, s.s. heilsugæslu á landsbyggðinni, Sjúkratryggingum íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og nýlega Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þess er einnig getið í niðurstöðu hæfnisnefndar að Markús hafi afar skýra sýn á áskoranir stofnunarinnar til skemmri og lengri tíma litið.

Subscribe to this RSS feed