Markús Ingólfur Eiríksson verður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Markús Ingólf Eiríksson forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að undangengnu mati lögskipaðrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. Skipað er í embættið til fimm ára, frá 1. mars næstkomandi.

Markús er með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og doktorspróf í endurskoðun með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja. Hann hefur frá árinu 2016 starfað hjá Ríkisendurskoðun sem sérfræðingur á stjórnsýslusviði. Áður starfaði hann hjá Ernst & Young Reykjavík, fyrst sem sérfræðingur í endurskoðun en síðan sem verkefnastjóri.

Í niðurstöðum hæfnisnefndar segir að Markús hafi yfirgripsmikla þekkingu á stjórnsýslu. Hann hafi í starfi sínu hjá Ríkisendurskoðun unnið að stjórnsýsluúttektum sem m.a. tengjast heilbrigðisþjónustunni, s.s. heilsugæslu á landsbyggðinni, Sjúkratryggingum íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og nýlega Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þess er einnig getið í niðurstöðu hæfnisnefndar að Markús hafi afar skýra sýn á áskoranir stofnunarinnar til skemmri og lengri tíma litið.

Konráð kvaddur eftir farsælan feril á HSS

Konrad

Konráð Lúðvíksson kvensjúkdómalæknir lét nýlega af störfum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir áratuga starf.

Konráð kom fyrst til starfa á HSS árið 1984 og hefur síðan starfað hér sem sérfræðingur, yfirlæknir og um tíma lækningaforstjóri. Á sínum langa ferli hefur hann unnið ötullega og af mikilli fórnfýsi að framgangi stofnunarinnar í þágu samfélagsins á Suðurnesjum.

Stjórnendur og starfsfólk HSS þakka Konráði fyrir ómetanlegt starf og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar í því sem nú við tekur.

Mynd: Framkvæmdastjórn HSS (Fjölnir F. Guðmundssson, framkvæmdastjóri lækninga, Halldór Jónsson forstjóri og Elís Reynarsson fjármálastjóri) kvaddi Konráð með virktum í gær, en með þeim á myndinni er Ragnheiður Magnúsdóttir, eiginkona Konráðs. Á myndina vantar Ingibjörgu Steindórsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Niðurstöður þjónustukönnunar fyrir HSS: Ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu

MinnismerkiViðhorf þeirra sem þiggja heilbrigðisþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er almennt jákvætt þegar horft er til einstakra deilda og þjónustuþátta, en er síður jákvætt þegar horft er til stofnunarinnar í heild. 

Þetta kemur fram í niðurstöðum þjónustukönnunar sem Capacent gerði fyrir HSS fyrr í vetur, en Halldór Jónsson forstjóri kynnti niðurstöðurnar á starfsmannafundi fyrir helgi.

Alls tóku 837 þjónustuþegar á Suðurnesjum þátt í könnuninni sem var framkvæmd með netkönnun og með úthringingum. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 75 ára og skiptust hlutfallslega jafnt eftir kynjum, aldri og búsetu. Ekki var marktækur munur á svörum þegar litið var til þeirra þátta.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur meðal annars fram að þátttakendur voru fyrst spurðir að ánægju með þjónustu HSS í heild. Þar var réttur helmingur sem var óánægður eða mjög óánægður með þjónustuna og meðaleinkunn var 2,57 af 5 mögulegum.

Eftir það var spurt um einstaka þjónustuþætti, sem fengu allir hærri meðaleinkunn meðal þátttakenda.

Læknavaktin síðdegis og um helgar var næstlægst með 2,86 í meðaleinkunn og almenn móttaka heilsugæslulækna á dagtíma kom þar á eftir með 3,19. Aðrar deildir og þjónustuþættir fengu betri útkomu. Ungabarnavernd skoraði hæst með 4,55 af 5 mögulegum og þar á eftir komu sykursýkismóttakan með 4,53, ljósmæðravaktin með 4,32 og hjúkrunarmóttaka með 4,30. 

Þjónustuþáttur Meðalskor
Ungbarnavernd 4,55
Sykursýkismóttaka 4,53
Ljósmæðravakt 4,32
Hjúkrunarmóttaka 4,30
Sérfræðilæknar 4,29
Rannsóknir 4,25
Heimahjúkrun 4,22
Röntgenmyndataka 3,94
Skólaheilsugæsla 3,90
Hjúkrunardeild í Víðihlíð 3,81
Dagdeild 3,74
Hvíld og endurhæfing 3,63
Sálfélagsleg þjónusta 3,62
Afgreiðslan í móttökunni 3,55
Sjúkradeild 3,42
Slysa- og bráðamóttaka 3,34
Afgreiðslan í aðalsíma HSS 3,22
Læknar á heilsugæslunni á dagtíma 3,19
Læknavaktin 2,86
Heildaránægja með HSS 2,57

Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir að þrátt fyrir að niðurstaðan sé vissulega ekki eins góð og æskilegt væri, sé þar fátt sem komi í raun á óvart. Þeir þjónustuþættir sem fá lægstu einkunn, eru einmitt þeir sem flestir nota, þ.e. læknavaktin, móttaka lækna á dagvinnutíma og slysa- og bráðamóttakan.

„Við höfum skynjað ákveðna óánægju með gang mála, en það helst í hendur að þar sem ekki tekst að uppfylla þörf íbúanna fyrir þjónustu verða til biðlistar og í sumum tilvikum of langir.“

Halldór segir að vandinn felist bæði í mannafla og aðstöðu, en misvel hefur gengið að manna stöður hjúkrunarfræðinga og lækna við stofnunina síðustu misseri auk þess sem húsnæði heilsugæslunnar uppfylli ekki kröfur. Fólksfjölgun hér á svæðinu hafi verið fordæmalaus og þrátt fyrir að viðbótarfjárveitingar hafi borist, hafi þær ekki reynst nægilegar.

Fólksfjölgun 2011-2019
Suðurnes 29%
Suðurland 15%
Höfuðborgarsvæði 13%
Vesturland 7%
Norðurland eystra 6%
Austurland 5%
Vestfirðir -1%
Norðurland vestra -2%

„Það má hins vegar ekki gleyma því að við komum í flestum tilvikum þokkalega vel út þegar spurt er um einstaka þjónustuþætti. Það sem vekur kannski helst athygli er að allir þjónustuþættir sem spurt er um, eru hærra metnir en ánægja með stofnunina í heild, sem segir okkur að við séum einnig að eiga við ákveðinn ímyndarvanda, en við honum verður líka að bregðast.“

Halldór segir að niðurstöður könnunarinnar muni verða nýttar til að bregðast við og bæta þjónustuna. Það verði meðal annars gert með því að meta ferla og framkvæmd þjónustunnar. Hér séu ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Við þurfum að styrkja og bæta aðstöðu okkar, bæði húsnæði, tæki og búnað og mannafla, þannig að það verði mögulegt að bjóða öllum íbúum svæðisins alla grunnheilbrigðisþjónustu á svæðinu á réttum tíma.“

„Það sem mér finnst hins vegar vera mikilvægast í þessum niðurstöðum er að þegar horft er til athugasemda frá þátttakendum í könnuninni, skín í gegn að viðhorf gagnvart starfsfólki HSS er almennt jákvætt. Okkar skjólstæðingar skynja að hér á HSS er gott starfsfólk sem gerir sitt besta, oft við krefjandi aðstæður. Á því byggjum við og vonumst til að gera enn betur.“

Um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja:
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur um tæplega 65 ára skeið þjónað Suðurnesjum og nágrenni þar sem nú búa rúmlega 27.000 manns. Auk þess er Keflavíkurflugvöllur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar innan þjónustusvæðis stofnunarinnar en þar höfðu hátt í tíu milljónir farþega viðkomu á síðasta ári.

Í könnuninni voru þátttakendur jafnframt spurðir hvort þeir hafi sótt heilbrigðisþjónustu annað en á HSS. Um fimmtungur svarenda sagðist nær eingöngu nýta sér heilbrigðisþjónustu annarsstaðar. Um helmingur þess hóps sagði að það væri vegna þess að þau töldu sig fá betri þjónustu annars staðar, en aðrir báru því meðal annars við að þjónusta sem þau leituðu sér væri ekki til staðar á HSS eða að það hentaði þeim einfaldlega betur að sækja þjónustu annað vegna atvinnu eða annarra þátta.

Gleðilegt nýtt ár - uppfærð gjaldskrá

Starfsfólk og stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja óska íbúum Suðurnesja gleðilegs nýs árs með þökkum fyrir hið liðna.

Rétt er að minna á að hinn 1. janúar tók gildi ný reglugerð um greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu. 


 

 

Meðal helstu breytinga má nefna:

Eldri borgarar og öryrkjar greiða ekki fyrir komugjöld á heilsugæslu.

Hámarksgreiðsla fyrir almenna hækkar í 26.100 kr og fyrir aldraða, öryrkja og börn í 17.400 kr.
• Fyrir komu og endurkomu á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa greiða almennir 6.700 kr. og aldraðir og öryrkjar 4.400 kr.
• Fyrir komu og endurkomu á dagdeild sjúkrahúsa greiða almennir 3.700 kr. og aldraðir og öryrkjar 2.400 kr.
• Fyrir rannsóknir greiða almennir 2.700 kr., aldraðir og öryrkjar 1.800 kr. og börn án tilvísunar 1.800 kr.

Gjaldskrá HSS

Ljósmæðravaktin fékk góða gjöf frá Marel

vog Marel

Ljósmæðravakt HSS barst góð gjöf á dögunum þegar fulltúar frá Marel mættu færandi hendi með tvær ungbarnavogir sem fyrirtækið framleiðir.

Tækin eru hin glæsilegustu og hafa þegar verið tekin í notkun eins og myndin af þessum skjólstæðingi ljósmæðravaktarinnar sýnir.

vog Marel1

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Þórarinn Kristjánsson afhenti gjöfina góðu frá Marel.

 

 

 

 

HSS fékk nýtt ómskoðunartæki að gjöf

 
Nýja ómtækið er greiningartæki sem notað er til að greina meinsemdir í innri kynfærum kvenna og til að fylgjast með fósturmyndun og fósturþroska á meðgöngu.
 
Krabbameinsfélag Suðurnesja hafði frumkvæði af því að gefa tækið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en Konráð Lúðvíksson, kvensjúkdómalæknir, leitaði til félagsins. Krabbameinsfélagið leitaði svo áfram til Lions- og Lionessuklúbbanna á Suðurnesjum, Oddfellowstúkunnar Jóns forseta og Rótarýklúbbs Keflavíkur undir þeim formerkjum að „margt smátt gerir eitt stórt“.
 
Einn af stærstu bakhjörlum Krabbameinsfélags Suðurnesja í gjöfinni er svo Sigurður Wium Árnason sem á dögunum  færði félaginu tvær milljónir króna að gjöf til minn­ing­ar um konu hans, Auði Bertu Sveins­dótt­ur, og son þeirra, Svein Wium Sigurðsson, sem bæði létust úr krabbameini fyrir mörgum árum.
 
Stjórnendur og starfsfólk HSS kunna öllum sem að gjöfinni koma að sjálfsögðu bestu þakkir. Stuðningur einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja á Suðurnesjum í stóru sem smáu er sannarlega verðmætur.
 
Mynd er af vef Víkurfrétta

Allir geta gefið líf – Lög um líffæragjafir breytast um áramót

Tímamót verða á Íslandi um áramót þegar breytingar á lögum um líffæragjafir taka gildi. Með því verða einstaklingar sjálfkrafa gefendur líffæra.

Þeir sem vilja af einhverjum ástæðum ekki vera sjálfkrafa líffæragjafar eftir lagabreytinguna geta skráð afstöðu sína á vef landlæknis eða á „Mínum síðum“ á heilsuvera.is. Heilsugæslulæknar geta svo aðstoðað þá sem ekki nota tölvu eða stunda tölvusamskipti við að gera ráðstafanir í þessum efnum, að því er fram kemur í frétt á vef embættis landlæknis. Nánari upplýsingar má finna hér á vef Landlæknis.

Embættið hefur nú, í tilefni af breytingunum, hafið fundaröð um landið þar sem hitt er á starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

Árlega þurfa 25-30 Íslendingar líffæraígræðslu

Árlega þarfnast 25-30 sjúklingar líffæraígræðslu á Íslandi og þeim fer fjölgandi að því er segir í fyrrnefndri grein. þegar eru fjarlægð úr látnu fólki og grædd í sjúklinga sem búa við að líffæri þeirra séu alvarlega biluð og starfi takmarkað eða alls ekki.  

Líffærin sem fjarlægð eru úr látnu fólki, t.a.m. hjörtu, lungu, lifur, nýru, bris eða þarmar eru flutt frá Íslandi til Svíþjóðar og grædd í sjúklinga á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Algengt er að ígrædd nýru komi frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum sjúklinga. Nýrnaaðgerðir eiga sér líka stað á Landspítala.

Einn getur gefið sex manns líf

Spánverjar eru allra þjóða duglegastir að gefa líffæri, en Íslendingar standa sig líka vel að þessu leyti og fóru meira að segja upp fyrir Spánverja á heimslista líffæragjafa árið 2015.

Alls hafa um hundrað manns á Íslandi gefið líffæri frá því að líffæragjafir hófust árið 1993 og því hafa vel yfir 350 manns notið góðs af líffæragjöf, því líffæri eins gjafa geta komið allt að sex manns til góða.

Alþjóðlegt samstarf er um líffæragjafir og líffæramiðlun. Líffæri Íslendinga bjarga mannslífum annarra Íslendinga en þau geta líka bjargað lífi þurfandi fólks annars staðar á Norðurlöndum og dæmi eru um að íslensk líffæri hafi verið grædd í fólk í Þýskalandi og Bretlandi. Á sama hátt bjarga líffæri útlendinga lífum Íslendinga.

Yngsti gjafinn nokkurra mánaða, sá elsti 85 ára

Í greininni á vef Landæknisembættisins kemur fram að á nýafstöðnum kynningarfundum Bæði á Sauðárkróki og Akureyri var spurt um hvort aldur líffæragjafa skipti ekki máli. Svarið er að svo er bara alls ekki.

Yngsti líffæragjafinn á Íslandi var nokkurra mánaða gamalt barn en sá elsti 85 ára. Raunar kom fram á fundunum að nýru og lungu úr börnum séu grædd í fullorðið fólk með ágætum árangri.

Allir geta þannig gefið líf.

Færði Ljósmæðravaktinni ilmolíulampa að gjöf


Erlingur Jónsson kom færandi hendi á HSS á dögunum og færði Ljósmæðravaktinni tvo ilmolíulampa og ilmolíur að gjöf frá honum og Rúnu úr versluninni Zolo & co sem þau reka.

Kann starfsfólk þeim bestu þakkir fyrir gjöfina, en þau hafa áður komið og gefið deildinni ilmolíulampa.

Heimsótti fæðingarstað sinn á HSS 60 árum síðar

 Mæðgurnar Anne Hemingway og Ellen Beam heimsóttu HSS 60 árum eftir að Anne fæddist þar.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk sannarlega góða heimsókn í gær þegar bandarísku mæðgurnar Anne Hemingway og Ellen Beam litu stuttlega við.

Svo skemmtilega vill til að réttum 60 árum áður, hinn 15. nóvember árið 1958 lenti flugvél TWA með Ellen og Gordon, eiginmann hennar, innanborðs þar eð Ellen, sem var gengin átta mánuði með sitt fyrsta barn, hafði misst vatnið. Þau voru flutt í hendingskasti niður á Sjúkrahús Keflavíkur, eins og það hét þá, þar sem Anne kom í heiminn.

Eftir vikulanga sængurlegu hélt fjölskyldan aftur heim á leið vestur um haf, en nú eru þær komnar aftur á fornar slóðir, á sextugsafmæli Anne.

 EllenBeam 3
Ellen og Anne hittu meðal annara Jónínu Birgisdóttur, deildarstjóra Ljósmæðravaktar HSS. Hér eru þær saman í herberginu þar sem Anne fæddist, 60 árum áður.

Ellen, sem er nú 89 ára, mundi að sjálfsögðu vel eftir atburðum og þrátt fyrir að húsnæðið í gömlu byggingu HSS hafi breyst mikið í gegnum tíðina, rann hún á það herbergi sem hún lá á þessum tíma. Þar er nú röntgendeild HSS staðsett.

„Ég var á jarðhæð og horfði út um gluggann á börn að leik,“ sagði Ellen og hefur eflaust horft út að Barnaskólanum í Keflavík, sem nú er Myllubakkaskóli.

Saga hennar þennan dag var næstum reyfarakennd. Þau hjónin höfðu verið á ferðalagi um Evrópu og hún átti ekki von á sér fyr en mánuði seinna. Skömmu eftir að vélin fór í loftið frá París fór hins vegar allt að gerast. Hún tók sóttina en sökum slæms skyggnis gat vélin hvorki snúið við eða lent á Bretlandseyjum.

„Svo var eins og opnaðist niður í gegnum skýin fyrir ofan Keflavík,“ rifjaði Ellen upp, og flugvélinni var lent þar og stefnan tekin á sjúkrahúsið, sem hafði verið stofnað einungis fjórum árum áður. Á leiðinni niður eftir varð svo bíllinn sem þau voru í bensínlaus, en sem betur fer gerðist það nálægt bensínstöð þannig að þau voru fljót að dæla á og koma sér á spítalann.

„Það var eins og Guð hafi bara ætlað okkur að komast hingað og eignast barnið,“ sagði Ellen.

Þegar þangað var komið tóku tvær konur á móti Ellen, önnur þeirra var ljósmóðirin Ásta Hermannsdóttir.

„Mér leist nú ekki á að það væri enginn læknir þarna inni hjá okkur, en Gordon, maðurinn minn, samdi við lækninn um að þeir væru í dyragættinni þar sem ég sæi til þeirra. Svo voru þær alveg yndislegar og allt gekk svo vel,“ sagði Ellen sem eignaðist þarna hana Anne sína, sem var spræk og hraust þrátt fyrir að vera smávaxin, enda fæddist hún mánuði fyrir tímann eins og fyrr segir.

Ellen og Anne lágu inni í eina viku eftir fæðinguna, en eftir það hélt litla fjölskyldan heim. Ævintýrið þeirra hafði þó komist í fréttirnar bæði hér heima og vestanhafs.

Á meðan heimsókninni stóð í gær hittu þær mæðgur Halldór Jónsson forstjóra HSS og Jónína Birgisdóttir deildarstjóri ljósmæðravaktar fylgdi þeim um salarkynnin.

Sérstaklega þótti þeim þó ánægjulegt að hitta Sólveigu Þórðardóttur, sem starfaði hjá HSS um áratugaskeið, frá árinu 1956 allt fram til ársloka 2010.

 EllenBeam 1
 Mæðgurnar höfðu sérstaka ánægju af því að hitta Sólveigu Þórðardóttur, sem vann á Sjúkrahúsinu í Keflavík og HSS um áratugaskeið. Hún sagði mæðgunum frá starfseminni á sjúkrahúsinu um það leyti sem Anne fæddist þar.

Sólveig, sem var lengst af deildarstjóri fæðingadeildarinnar var sjálf ekki viðstödd fæðingu Anne, en gat meðal annars borið kennsl á starfsfólk sem var á ljósmyndum sem mæðgurnar höfðu með sér, og sagt frá starfseminni þessi fyrstu ár Sjúkrahússins.

Þegar Sólveig spurði Ellen um hvort henni hafi liðið illa eftir fæðinguna, verandi svo langt að heiman þar sem þau þekktu engan, þvertók Ellen fyrir það. Dvölin hafi verið yndisleg.

Hún hafi kynnst íslenskri konu sem átti barn sjúkrahúsinu á sama tíma. Sú átti amerískan mann ofan af herstöð, sem útvegaði Gordon svefnstað og Ellen fékk hjá þeim útvarp til að hlusta á tónlist og þess háttar.

Ellen og Anne voru sammála um að heimsóknin hafi haft mikil áhrif á þær og voru afar þakklátar fyrir móttökurnar sem þær fengu.

„Okkur fannst eins og við þyrftum að koma hingað,“ sagði Ellen. „Við eigum merkilega sögu sem okkur fannst við þurfa að segja.“

Starfsfólk HSS þakkaði þeim einnig fyrir yndislega heimsókn og bauð þær velkomnar aftur hvenær sem er.

Inflúensubólusetningar enn í fullum gangi á HSS

vaccin anti grippe

Íbúar Suðurnesja eru minntir á að enn er verið að bólusetja fyrir inflúensu á hjúkrunarmóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Tímapantanir eru í síma 422-0500.

Subscribe to this RSS feed