Forstjóri HSS: Aðgerða er þörf í húsnæðismálum

HSS Markus pontu netSvandís Svavardóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýsamþykkta heilbrigðisstefnu fyrir Ísland á opnum fundi á HSS í vikunni. Á fundinum sagði Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, að stefnan markaði tímamót í heilbrigðismálum hér á landi, en ýmislegt væri enn ógert til að svara kröfum almennings um heilbrigðisþjónustu.
 
„Eitt lykilatriði í að vinna eftir heilbrigðisstefnunni er að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.“
 
Markús sagði lýðheilsuvísa sýna glöggt að hvergi sé eins mikil þörf fyrir öfluga heilsugæsluþjónustu og einmitt hér á Suðurnesjum. Þá skjóti skökku við að ekki hafi verið tekið tillit til mikillar íbúafjölgunar á svæðinu, sem hafi aukið álag á stofnunina, bæði hvað varðar húsnæði og mönnun. Hvað varðar það síðarnefnda skiptir miklu að geta boðið upp á gott og aðlaðandi starfsumhverfi til að laða að fólk, en staðreyndin sé að HSS er í mikilli samkeppni við aðrar stofnanir í þeim efnum.
 
Starfsfólkið, sem sé sannarlega fáliðað og undir miklu álagi, hafi þó gert sitt besta í erfiðum aðstæðum, en eftir standi að íbúar í samfélaginu séu ekki ánægðir með þjónustuna og eitt af helstu vandamálunum sé ímyndarvandi. Nú sé þó verið að vinna í því að bæta bæði þjónustu og ímynd HSS.
 
„Við ætlum okkur að gera betur og við sjáum nú þegar mörg jákvæð teikn á lofti. Við erum með ungt, kraftmikið og vel menntað starfsfólk og erum að þróa breytt verklag á heilsugæslunni, meðal annars með bættum rafrænum lausnum, aukinni teymisvinnu og samskiptum við félagsþjónustu sveitarfélaganna á svæðinu.“
 
HSS fundur stefna salur netHúsnæðisumbætur á HSS eru að sögn Markúsar algjört lykilatriði þegar horft er fram á veginn.
 
„Við þurfum að fara út í endurbætur og þar er auðvitað nauðsynlegt að hafa skýra langtímahugsun í þeim efnum, en það er engin spurning að aðgerða er þörf strax.“ 
 
Myndir/Heilbrigðisráðuneytið

Kvenfélag Grindavíkur gaf Ljósmæðravaktinni hjartsláttarrita

fosturriti Kvenfel GriLjósmæðravaktin á HSS fékk sannarlega veglega gjöf á dögunum þegar fulltrúar frá Kvenfélagi Grindavíkur afhentu deildinni fósturhjartsláttarita að verðmæti 1.500.000 króna.

Tækið mælir hjartslátt fósturs sem og tíðni og lengd samdrátta hjá móður og kemur í stað tækis sem hefur verið notað í 25 ár.

Við afhendinguna þakkaði Jónína Birgisdóttir yfirljósmóðir innilega fyrir gjöfina. 

„Við ljósmæður viljum þakka fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem seint verður fullþakkað. Okkur þykir mjög vænt um að Kvenfélag Grindavíkur sé að styðja svo vel við Ljósmæðravaktina.“

Jónína bætir því við að með þessu nýja tæki sé ljósmæðravaktin að færast yfir í nútímann. Tækið tengist við tölvu og getur vistað ritin rafrænt, sem er bæði umhverfisvænt með því að spara pappírsnotkun, en býður einnig upp á bætta þjónustu við skjólstæðinga deildarinnar. 

Með því að hafa ritin rafræn er hægt að senda hjartsláttarrit rafrænt til frekari skoðunar hjá sérfræðingum á kvennadeild LSH. Tækið er ekki aðeins notað í fæðingum heldur líka á meðgöngunni, t.d. fyrir konur sem eru með einhverja áhættuþætti á meðgöngu.

Lýðheilsuvísar kynntir í Hljómahöll

lydheilsuvisarHSS2019net

Embætti landlæknis stóð fyrir kynningu á nýjum lýðheilsuvísum fyrir Ísland, eftir heilbrigðisumdæmum, í Hljómahöll í Reykjanesbæ í gær.

Alma Möller landlæknir og fleiri sérfræðingar fóru yfir stöðuna, en Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, var fundarstjóri.

Fundurinn var fjölsóttur og kynntir voru margskonar vísar og mikilvægi þeirra fyrir stefnumótun í heilbrigðis- og lýðheilsumálum. Meðal annars kom fram að Suðurnes stendur misvel að vígi í vísunum.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, var meðal ræðumanna og sagði að hér á svæðinu væri sannarlega verk að vinna en margvísleg verkefni séu þegar farin af stað með góðum árangri og ýmislegt annað sé í burðarliðnum. Þar sé lykilatriði að hafa aðgang að lýðheilsuvísunum til að vinnan verði markvissari.

„Það var ánægjulegt að fá að koma að þessari kynningu og margt fróðlegt sem þarna kom fram,“ sagði Markús að fundi loknum. „Lýðheilsuvísar eru mikilvægt tól til að vinna að heilbrigðara samfélagi í sem víðustum skilningi. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur þar ríku hlutverki að gegna í samvinnu við sveitarfélög, stjórnvöld og almenning á Suðurnesjum.“

Mælaborð Lýðheilsuvísa má finna hér.

Háls-, nef- og eyrnalæknar á HSS á ný

HNE HSSnet

Það er ánægjulegt að segja frá því að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja býður nú aftur upp á þjónustu háls-, nef- og eyrnalækna í Reykjanesbæ.

Þrír sérfræðingar, Stefán Eggertsson, Sigurður Torfi Grétarsson og Kristján Guðmundsson, skipta með sér dögum en gert er ráð fyrir að þeir séu með móttöku tvo daga í viku.

Tekið er á móti tímabókunum í afgreiðslu HSS, í síma 422-0500.

Rétt er að minna á að börn þurfa tilvísun frá heilsugæslulækni til að sleppa við að greiða komugjald til sérfræðinga.

Lionessur í Keflavík gáfu D-deild hárgreiðslustól

gjofDd5.2019 1net

Lionessuklúbbur Keflavíkur er einn af mörgum ómetanlegum bakhjörlum Heilbrigiðsstofnunar Suðurnesja og komu þær færandi hendi í gær.

Þar afhentu fulltrúar þeirra D-deild HSS hárgreiðslustól og hársnyrtivörur að verðmæti um 250.000 kr.

Stóllinn og vörurnar munu tvímælalaust koma sér vel fyrir legusjúklinga á sjúkradeildinni og er lionessum að sjálfsögðu þakkað innilega fyrir þetta góða framlag til stofnunarinnar og skjólstæðinga hennar.

gjofDd5.2019 2net

Ljósmæðravakt fékk samfellur að gjöf

samfellur19 1

Það sýndi sig enn og aftur á dögunum hvað ljósmæðravakt HSS á góða að í samfélaginu hér syðra. Þá kom hópur fólks færandi hendi með samfellur handa nýburum sem fæðast á deildinni.

Um var að ræða samstarfsverkefni hjá Samvinnu - starfsendurhæfingu hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Virk starfsendurhæfingarsjóði, Lindex, Nettó og Reykjanesapóteki.

Hugmyndin fæddist, ef svo má segja, í hópastarfi Samvinnu á vegum VIRK, en þar var ákveðið að gefa ljósmæðravaktinni 150 samfellur með myndskreytingu eftir eina úr hópnum.

Lindex lagði þeim svo til samfellurnar, sem eru úr lífrænni bómull, og auk þess styrktu Nettó og Reykjanesapótek við verkefnið.

Við afhendinguna þakkaði Jónína Birgisdóttir, deildarstjóri ljósmæðravaktarinnar, innilega fyrir gjöfina sem mun vafalaust koma að góðum notum, en foreldrar munu fá að taka samfelluna með sér heim að lokinni legu.

Fulltrúar Lindex á Íslandi bættu einnig um betur og gáfu fyrirheit um að styrkja deildina enn frekar á næstunni með fatagjöfum.

Starfsfólk og stjórnendur HSS þakka að sjálfsögðu kærlega fyrir gjafirnar og hlýhuginn sem þeim fylgja.

samfellur19 2

Andrea Klara ráðin í starf yfirhjúkrunarfræðings á heilsugæslu HSS

Andrea Klara Hauksdóttir hefur verið ráðin í starf yfirhjúkrunarfræðings á heilsugæslu HSS. Ráðningin er tímabundin til ársloka.

Andrea hefur unnið hjá HSS með hléum allt frá árinu 1993, fyrst sem sjúkraliði á Víðihlíð en síðar sem móttökuritari og læknaritari á heilsugæslunni í Grindavík og svo sem hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri í Reykjanesbæ frá árinu 2008, bæði á legudeild og skurðstofu- og speglunardeild. Auk þess hefur Andrea unnið í hlutastarfi sem speglunarhjúkrunarfræðingur í Meltingarsetrinu í Mjódd síðustu ár.

Hún lauk BSc. í hjúkrunarfræðum árið 2009 og meistaragráðu við Háskólann á Akureyri árið 2015 og hefur einnig unnið mikið að félags- og fagstörfum, meðal annars innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagfélags speglunarhjúkrunarfræðinga.

Andreu er árnað heilla í nýju hlutverki á HSS.

Skúli nýr yfirlæknir á sjúkrasviði HSS

Skuli net

Skúli Tómas Gunnlaugsson hjartalæknir var á dögunum ráðinn í starf yfirlæknis á sjúkrasviði HSS. Hann hefur þegar hafið störf.

Starf yfirlæknis felst í stjórnun og stýringu sjúkradeildar hjá HSS, en yfirlæknir sinnir einnig almennri vinnu á sjúkradeild og móttöku sjúklinga á göngudeild.

Skúli hefur starfað á sjúkradeild HSS síðan í febrúar 2018, en fyrir það var hann búsettur í 20 ár í Bandaríkjunum fyrst við nám í Wisconsin og Iowa, og síðar við störf hjá HIMG í Vestur Virginíu.

Skúla er árnað heilla með óskum um velgengni í nýju starfi.

 

Mynd: Skúli með Markúsi Eiríki Ingólfssyni forstjóra og Fjölni Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra lækninga.

Full þjónusta á ljósmæðravakt HSS í sumar

vog MarelÞað er með mikilli ánægju sem hægt er að tilkynna að Ljósmæðravakt HSS verður opin með fullri þjónustu í allt sumar.

Undanfarin ár hefur það verið svo að þurft hefur að loka fæðingadeildinni um mánaðarskeið yfir sumartímann og eins og gefur að skilja hefur það komið sér mjög illa fyrir marga. Það er því af sem áður var og verður tekið á móti verðandi og nýbökuðum foreldrum á ljósmæðravaktinni, nótt sem nýtan dag, sumar sem vetur.

We are happy to announce that our delivery service will be open the whole year round. For the last few years we have had to close the delivery unit for a about one month period over the summertime, so all birthing women had to get delivery service outside of Reykjanesbær during that time. But for now on we will be able to provide full service the whole year round.

Öryggisráðstafanir á slysa- og bráðamóttöku HSS

Skjólstæðingar og gestir HSS eru beðnir að athuga eftirfarandi.

Tekin var ákvörðun um að setja upp hurð sem lokar af aðgengi að slysa- og bráðamóttökuganginum. Ástæða þess er ónæði af fólki sem hefur farið án leyfis inn á slysa- og bráðamóttöku í misjöfnum tilgangi. Það er því mikið öryggisatriði að koma í veg fyrir umgang óviðkomandi inn á deildina.

Einnig hjálpar þetta okkur á HSS við að skapa rólegra umhverfi fyrir skjólstæðinga okkar og styður einnig við persónuvernd.

Viljum við því biðja skjólstæðinga slysa- og bráðamóttöku og myndgreiningadeildar að hafa eftirfarandi í huga:

• Ef þú þarft á þjónustu myndgreiningadeildar (þarft röntgen- eða tölvusneiðmyndatöku) að halda þá kemur þú við hjá móttökuritara, færð þér sæti í biðstofunni og starfsfólk deildarinnar fylgir þér inn.

• Ef þú þarft á þjónustu slysa- og bráðamóttöku að halda þá kemur þú við hjá móttökuritara, færð þér sæti í biðstofunni og starfsfólk deildarinnar fylgir þér inn.

• Ef þú ert alvarlega veik/-ur eða slasaður/slösuð s.s. finnur fyrir brjóstverk eða óbærilegum kviðverkjum þá ferðu fyrst til móttökuritara og móttökuritari upplýsir starfsfólk deildarinnar sem fylgir þér inn.

• Ef mikil biðröð er að móttökuritara og þú ert alvarlega veik/-ur eða slasaður/slösuð, þá ferðu fram fyrir röðina og upplýsir móttökuritara strax um ástand þitt.

Subscribe to this RSS feed