Mislingabólusetningar á HSS á morgun og laugardag

Ljóst er að HSS mun fá um 800 skammta af bóluefni gegn mislingum og mun bólusetning hefjast á morgun, föstudaginn 15. mars.

Samkvæmt ákvörðun sóttvarnalæknis hjá Embætti landlæknis, skal bólusetja þá sem eru óbólusettir á aldrinum 12 mánaða til 49 ára, bóluefnið er þeim að kostnaðarlausu, en fullorðnir greiða fyrir komugjald.

Tímabókanir á heilsugæsluna í Reykjanesbæ fara fram á heilsuveru.is en einnig er hægt að bóka tíma í síma 422-0500. Vinsamlegast notið frekar tímabókun í Heilsuveru til að minnka álag á símkerfi stofnunarinnar.

Tímabókanir á heilsugæsluna í Grindavík fara fram í síma 422-0750 milli kl 8-15 alla virka daga. Ekki er verið að bólusetja þar um helgina.

Í fyrstu verður boðið upp á bólusetningar á morgun milli kl 13-16 og á laugardeginum 16. mars kl 9-12 og 13-16.

Þeir aðilar sem hafa fengið eina bólusetningu eða eru eldri en 49 ára (fæddir fyrir 1970) eru ekki í forgangshópi og fá því ekki bólusetningu að sinni.

Ónæmisbældir einstaklingar þurfa að ráðfæra sig við sérfræðilækni sinn til að meta hvort viðkomandi eigi að fá bólusetningu en öllu jöfnu er reynt að forðast að gefa ónæmisbældum mislingasprautu.

Við minnum á að það hefur enginn á Suðurnesjum greinst með mislinga.

Ekki boð um bólusetningar um sinn utan höfuðborgarsvæðis og Austurlands

Athygli er vakin á því að boð sóttvarnarlæknis um bólusetningu gegn mislingum fyrir óbólusetta einstaklinga gildir eingöngu fyrir einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi, en ekki á Suðurnesjum í bili.

Íbúar Suðurnesja, sérstaklega foreldrar óbólusettra barna, eru þó hvattir til að fylgjast með þróun mála hér á vef HSS, Facebook-síðu stofnunarinnar og vef Embættis landlæknis.

Einnig getur fólk hringt í síma 1700 og fengið ráðleggingar.

Til hvaða ráðstafana er verið að grípa til á Íslandi gegn mislingum?

BoluefniVegna frétta um mislingasmit á Íslandi og allnokkurra fyrirspurna til heilsugæslu HSS er rétt að vekja athygli á eftirfarandi frétt af vef Embættis landlæknis

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hafa fjórir einstaklingar greinst með mislinga á Íslandi á þessu ári, tveir fullorðnir og tvö börn og heilsast öllum vel. Allir einstaklingarnir voru óbólusettir eftir því sem best er vitað og smituðust allir í flugi Air Iceland Connect þann 15.2.2019. Þetta sýnir að mislingar eru mjög smitandi og smitast auðveldlega á milli einstaklinga við litla snertingu.

Sóttvarnalæknir, í samvinnu við heilsugæsluna, Landspítala, Læknavaktina og fleiri aðila, hefur unnið að eftirfarandi sóttvarnaráðstöfunum sem miða að því að hindra frekari dreifingu sýkingarinnar:

  1. Sóttkví. Allir einstaklingar sem eru óbólusettir og komist hafa í snertingu við mislingasmit eru beðnir um að halda sig heima frá degi 6 til dags 21 eftir smit. Á þessum tíma geta veikindi komið fram og eru einstaklingar þá smitandi og verða reyndar smitandi um einum sólahring áður en veikindin byrja. Ekki þarf að setja bólusetta einstaklinga í sóttkví.
  2. Bólusetning gegn mislingum. Ef einstaklingur sem verður fyrir smiti er bólusettur innan 72 klst. frá smiti þá eru góðar líkur á því að einstaklingurinn veikist ekki.
    Mælt er með bólusetningu óbólusettra fjölskyldumeðlima þeirra sem komast í snertingu við mislingasmit því það mun koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu. 
    Bólusetningu má gefa börnum allt niður í 6 mánaða aldur en árangurinn er ekki alveg ótvíræður á aldrinum 6–12 mánaða og þarf því að bólusetja þessi börn aftur við 18 mánaða aldur.
  3. Meðhöndlun veikra. Ef einstaklingar telja sig eða börn sín geta verið veik af mislingum þá er fólk beðið um að koma ekki beint á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús heldur hafa fyrst samband símleiðis í síma 1700 eða við sína heilsugæslustöð. Þar fær fólk ráðleggingar og mun sjá um að senda lækni heim til viðkomandi ef ástæða þykir til, til að greina og staðfesta sýkinguna. Einnig verður hægt að senda viðkomandi á sjúkrahús til meðferðar samkvæmt fyrirfram ákveðnum leiðbeiningum sem gefnar verða.
  4. Upplýsingar um mislinga og mislingasmit. Til að fá upplýsingar um mislinga og mislingasmit má hringja í síma 1700 og einnig til heilsugæslustöðva.

Sóttvarnalæknir telur litlar líkur á útbreiddum faraldri hér á landi ef öllum ofangreindum varúðarráðstöfunum verður fylgt. Að auki er rétt að benda á að almenn þátttaka í bólusetningum hér á landi er um 90−95% sem á að duga til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur.

Dagur heyrnar - Hugum að heyrnarheilsu

HeyrnDagur heyrnar er haldinn hátíðlegur í dag 4. mars, í samvinnu Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands og Heyrnarhjálpar - Félags heyrnarskertra á Íslandi.

Dagurinn tengist alþjóðlegum degi heyrnar sem Alþjóða Heilbrigðisstofnunin stendur árlega fyrir, World Hearing Day.

Þema dagsins í ár er „Mælum heyrnina“, sem er hvatning til fólks að láta fylgjast með heyrnarheilsu sinni og barna sinna.

Á heilsugæslu HSS er hægt að bóka tíma í heyrnarmælingu í samráði við starfsfólk.

Frekari upplýsingar má fá í síma 422-0500.

Halldór kvaddi starfsfólk HSS

Halldór Jónsson lét í dag af störfum sem forstjóri HSS eftir rúmlega fimm ára starf. 

Af því tilefni bauð hann til kaffisamsætis fyrir starfsfólk í fundarsal þar sem hann kvaddi og þakkaði fyrir gott samstarf á liðnum árum. 

Halldóri er þakkað fyrir góð störf í þágu stofnunarinnar og óskað velfarnaðar í framtíðarstörfum. 

Við starfi forstjóra HSS tekur Markús Ingólfur Eiríksson. 

Markús Ingólfur Eiríksson verður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Markús Ingólf Eiríksson forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að undangengnu mati lögskipaðrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. Skipað er í embættið til fimm ára, frá 1. mars næstkomandi.

Markús er með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og doktorspróf í endurskoðun með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja. Hann hefur frá árinu 2016 starfað hjá Ríkisendurskoðun sem sérfræðingur á stjórnsýslusviði. Áður starfaði hann hjá Ernst & Young Reykjavík, fyrst sem sérfræðingur í endurskoðun en síðan sem verkefnastjóri.

Í niðurstöðum hæfnisnefndar segir að Markús hafi yfirgripsmikla þekkingu á stjórnsýslu. Hann hafi í starfi sínu hjá Ríkisendurskoðun unnið að stjórnsýsluúttektum sem m.a. tengjast heilbrigðisþjónustunni, s.s. heilsugæslu á landsbyggðinni, Sjúkratryggingum íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og nýlega Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þess er einnig getið í niðurstöðu hæfnisnefndar að Markús hafi afar skýra sýn á áskoranir stofnunarinnar til skemmri og lengri tíma litið.

Konráð kvaddur eftir farsælan feril á HSS

Konrad

Konráð Lúðvíksson kvensjúkdómalæknir lét nýlega af störfum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir áratuga starf.

Konráð kom fyrst til starfa á HSS árið 1984 og hefur síðan starfað hér sem sérfræðingur, yfirlæknir og um tíma lækningaforstjóri. Á sínum langa ferli hefur hann unnið ötullega og af mikilli fórnfýsi að framgangi stofnunarinnar í þágu samfélagsins á Suðurnesjum.

Stjórnendur og starfsfólk HSS þakka Konráði fyrir ómetanlegt starf og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar í því sem nú við tekur.

Mynd: Framkvæmdastjórn HSS (Fjölnir F. Guðmundssson, framkvæmdastjóri lækninga, Halldór Jónsson forstjóri og Elís Reynarsson fjármálastjóri) kvaddi Konráð með virktum í gær, en með þeim á myndinni er Ragnheiður Magnúsdóttir, eiginkona Konráðs. Á myndina vantar Ingibjörgu Steindórsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Niðurstöður þjónustukönnunar fyrir HSS: Ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu

MinnismerkiViðhorf þeirra sem þiggja heilbrigðisþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er almennt jákvætt þegar horft er til einstakra deilda og þjónustuþátta, en er síður jákvætt þegar horft er til stofnunarinnar í heild. 

Þetta kemur fram í niðurstöðum þjónustukönnunar sem Capacent gerði fyrir HSS fyrr í vetur, en Halldór Jónsson forstjóri kynnti niðurstöðurnar á starfsmannafundi fyrir helgi.

Alls tóku 837 þjónustuþegar á Suðurnesjum þátt í könnuninni sem var framkvæmd með netkönnun og með úthringingum. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 75 ára og skiptust hlutfallslega jafnt eftir kynjum, aldri og búsetu. Ekki var marktækur munur á svörum þegar litið var til þeirra þátta.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur meðal annars fram að þátttakendur voru fyrst spurðir að ánægju með þjónustu HSS í heild. Þar var réttur helmingur sem var óánægður eða mjög óánægður með þjónustuna og meðaleinkunn var 2,57 af 5 mögulegum.

Eftir það var spurt um einstaka þjónustuþætti, sem fengu allir hærri meðaleinkunn meðal þátttakenda.

Læknavaktin síðdegis og um helgar var næstlægst með 2,86 í meðaleinkunn og almenn móttaka heilsugæslulækna á dagtíma kom þar á eftir með 3,19. Aðrar deildir og þjónustuþættir fengu betri útkomu. Ungabarnavernd skoraði hæst með 4,55 af 5 mögulegum og þar á eftir komu sykursýkismóttakan með 4,53, ljósmæðravaktin með 4,32 og hjúkrunarmóttaka með 4,30. 

Þjónustuþáttur Meðalskor
Ungbarnavernd 4,55
Sykursýkismóttaka 4,53
Ljósmæðravakt 4,32
Hjúkrunarmóttaka 4,30
Sérfræðilæknar 4,29
Rannsóknir 4,25
Heimahjúkrun 4,22
Röntgenmyndataka 3,94
Skólaheilsugæsla 3,90
Hjúkrunardeild í Víðihlíð 3,81
Dagdeild 3,74
Hvíld og endurhæfing 3,63
Sálfélagsleg þjónusta 3,62
Afgreiðslan í móttökunni 3,55
Sjúkradeild 3,42
Slysa- og bráðamóttaka 3,34
Afgreiðslan í aðalsíma HSS 3,22
Læknar á heilsugæslunni á dagtíma 3,19
Læknavaktin 2,86
Heildaránægja með HSS 2,57

Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir að þrátt fyrir að niðurstaðan sé vissulega ekki eins góð og æskilegt væri, sé þar fátt sem komi í raun á óvart. Þeir þjónustuþættir sem fá lægstu einkunn, eru einmitt þeir sem flestir nota, þ.e. læknavaktin, móttaka lækna á dagvinnutíma og slysa- og bráðamóttakan.

„Við höfum skynjað ákveðna óánægju með gang mála, en það helst í hendur að þar sem ekki tekst að uppfylla þörf íbúanna fyrir þjónustu verða til biðlistar og í sumum tilvikum of langir.“

Halldór segir að vandinn felist bæði í mannafla og aðstöðu, en misvel hefur gengið að manna stöður hjúkrunarfræðinga og lækna við stofnunina síðustu misseri auk þess sem húsnæði heilsugæslunnar uppfylli ekki kröfur. Fólksfjölgun hér á svæðinu hafi verið fordæmalaus og þrátt fyrir að viðbótarfjárveitingar hafi borist, hafi þær ekki reynst nægilegar.

Fólksfjölgun 2011-2019
Suðurnes 29%
Suðurland 15%
Höfuðborgarsvæði 13%
Vesturland 7%
Norðurland eystra 6%
Austurland 5%
Vestfirðir -1%
Norðurland vestra -2%

„Það má hins vegar ekki gleyma því að við komum í flestum tilvikum þokkalega vel út þegar spurt er um einstaka þjónustuþætti. Það sem vekur kannski helst athygli er að allir þjónustuþættir sem spurt er um, eru hærra metnir en ánægja með stofnunina í heild, sem segir okkur að við séum einnig að eiga við ákveðinn ímyndarvanda, en við honum verður líka að bregðast.“

Halldór segir að niðurstöður könnunarinnar muni verða nýttar til að bregðast við og bæta þjónustuna. Það verði meðal annars gert með því að meta ferla og framkvæmd þjónustunnar. Hér séu ýmis tækifæri þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Við þurfum að styrkja og bæta aðstöðu okkar, bæði húsnæði, tæki og búnað og mannafla, þannig að það verði mögulegt að bjóða öllum íbúum svæðisins alla grunnheilbrigðisþjónustu á svæðinu á réttum tíma.“

„Það sem mér finnst hins vegar vera mikilvægast í þessum niðurstöðum er að þegar horft er til athugasemda frá þátttakendum í könnuninni, skín í gegn að viðhorf gagnvart starfsfólki HSS er almennt jákvætt. Okkar skjólstæðingar skynja að hér á HSS er gott starfsfólk sem gerir sitt besta, oft við krefjandi aðstæður. Á því byggjum við og vonumst til að gera enn betur.“

Um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja:
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur um tæplega 65 ára skeið þjónað Suðurnesjum og nágrenni þar sem nú búa rúmlega 27.000 manns. Auk þess er Keflavíkurflugvöllur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar innan þjónustusvæðis stofnunarinnar en þar höfðu hátt í tíu milljónir farþega viðkomu á síðasta ári.

Í könnuninni voru þátttakendur jafnframt spurðir hvort þeir hafi sótt heilbrigðisþjónustu annað en á HSS. Um fimmtungur svarenda sagðist nær eingöngu nýta sér heilbrigðisþjónustu annarsstaðar. Um helmingur þess hóps sagði að það væri vegna þess að þau töldu sig fá betri þjónustu annars staðar, en aðrir báru því meðal annars við að þjónusta sem þau leituðu sér væri ekki til staðar á HSS eða að það hentaði þeim einfaldlega betur að sækja þjónustu annað vegna atvinnu eða annarra þátta.

Gleðilegt nýtt ár - uppfærð gjaldskrá

Starfsfólk og stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja óska íbúum Suðurnesja gleðilegs nýs árs með þökkum fyrir hið liðna.

Rétt er að minna á að hinn 1. janúar tók gildi ný reglugerð um greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu. 


 

 

Meðal helstu breytinga má nefna:

Eldri borgarar og öryrkjar greiða ekki fyrir komugjöld á heilsugæslu.

Hámarksgreiðsla fyrir almenna hækkar í 26.100 kr og fyrir aldraða, öryrkja og börn í 17.400 kr.
• Fyrir komu og endurkomu á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa greiða almennir 6.700 kr. og aldraðir og öryrkjar 4.400 kr.
• Fyrir komu og endurkomu á dagdeild sjúkrahúsa greiða almennir 3.700 kr. og aldraðir og öryrkjar 2.400 kr.
• Fyrir rannsóknir greiða almennir 2.700 kr., aldraðir og öryrkjar 1.800 kr. og börn án tilvísunar 1.800 kr.

Gjaldskrá HSS

Ljósmæðravaktin fékk góða gjöf frá Marel

vog Marel

Ljósmæðravakt HSS barst góð gjöf á dögunum þegar fulltúar frá Marel mættu færandi hendi með tvær ungbarnavogir sem fyrirtækið framleiðir.

Tækin eru hin glæsilegustu og hafa þegar verið tekin í notkun eins og myndin af þessum skjólstæðingi ljósmæðravaktarinnar sýnir.

vog Marel1

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Þórarinn Kristjánsson afhenti gjöfina góðu frá Marel.

 

 

 

 

Subscribe to this RSS feed