Inflúensubólusetningar enn í fullum gangi á HSS

vaccin anti grippe

Íbúar Suðurnesja eru minntir á að enn er verið að bólusetja fyrir inflúensu á hjúkrunarmóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Tímapantanir eru í síma 422-0500.

Svavar H. Viðarsson ráðinn persónuverndarfulltrúi HSS

SvavarHVSvavar H. Viðarsson hefur verið ráðinn persónuverndarfulltrúi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og mun sjá um málefni tengd persónuverndarstefnu HSS.

Svavar er menntaður á sviði stjórnunar og hefur yfir áratugsreynslu í stjórnendaráðgjöf og þjálfun. Hann stýrir verkefnum tengdum persónuverndarmálum hjá mörgum fyrirtækjum og stofnunum, m.a. Eimskipum, Norðurþingi, Hafnarfjarðarbæ, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Securitas o.fl.

Samkvæmt nýrri persónuverndarlöggjöf skal persónuverndarfulltrúi vera til staðar hjá öllum stofnunum, ráðuneytum og sveitarfélögum og ákveðnum fyrirtækjum. Hann hafi það hlutverk að fylgjast með því að fyrirtæki og stofnanir fari að persónuverndarlögum.

Flottir krakkar úr Njarðvíkum héldu tombólur til styrktar HSS

tombola2018
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk sannarlega góða heimsókn í dag þegar þrjú börn úr Njarðvíkum, þau Alexandra Eysteinsdóttir, Auður Dagný Magnúsdóttir og Pétur Garðar Eysteinsson komu við og afhentu afrakstur af nokkrum tombólum sem þau hafa staðið fyrir undanfarin misseri.

Alls afhentu þau Ingibjörgu Steindórsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á HSS, 6.327 krónur sem munu fara í gjafasjóð HSS og nýtast til verðugra verkefna.

Ingibjörg sagði að HSS kunni þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir og leysti þau út með viðurkenningarskjali og hollu snarli.

Team Auður veitti heimahjúkrun HSS veglegar gjafir

TeamAudur2018
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja barst höfðingleg gjöf á dögunum þegar styrktarsjóðurinn Team Auður kom færandi hendi með ýmis konar búnað fyrir heimahjúkrunarteymi HSS. Þessi gjöf er eitt af mörgum málefnum sem Team Auður styrkir að þessu sinni, en í þessu átaki safnaði hópurinn alls 630.000 krónum sem  fóru í góð málefni á Suðuresjum.

Team Auður er styrktarsjóður sem stofnaður var árið 2013 í minningu Auðar Jónu Árnadóttur sem lést árið 2012 eftir baráttu við krabbamein. Félagsskapurinn, sem telur um fimmtíu konur, hefur styrkt fjölmörg góð málefni í gegnum tíðina og hefur legudeild HSS meðal annars fengið að njóta góðs af þeirra frábæra starfi.

Meðal þess sem hópurinn gaf að þessu sinni voru blóðþrýstingsmælar, mettunarmælar og margvíslegur búnaður til að auðvelda starfsfólki heimahjúkrunar starf sitt. Þá færðu þær starfsfólkinu nuddsessu til afnota á skrifstofu deildarinnar.

Kunna starfsfólk og stjórnendur heimahjúkrunar HSS Team Auði bestu þakkir fyrir gjafirnar. Fyrir utan notagildi gjafanna er ekki síður ómetanlegt að finna fyrir slíkri jákvæðni og stuðningi frá íbúum Suðurnesja.

Sænskar ljósmæður kynntu sér starfsemina á HSS

Sve ljosm18Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk góða heimsókn á dögunum þar sem hópur ljósmæðra frá Gautaborg kom við á kynningarferð sinni um fæðingardeildir hér á landi.

Þær fengu stutta yfirferð um starfsemi og stefnu Ljósmæðravaktar HSS og sögðust hrifnar af aðstöðunni og starfinu sem hér fer fram.

Var heimsóknin bæði skemmtileg og fróðleg jafnt fyrir gestina sem og ljósmæðurnar á HSS.

Fyrirlestur um heilsueflingu eldri borgara í tilefni af heilsu- og forvarnaviku

Í tilefni af heilsu- og forvarnaviku á Suðurnesjum var eldri borgurum í Grindavík boðið upp á fyrirlestur á vegum Heilsugæslunnar í Grindavík.

Betsý Á Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur á HSS er í sérnámi í heilsugæsluhjúkrun og einn liður í því eru fræðslufyrirlestrar. Hún fjallaði um heilsueflingu eldri borgara með áherslu á mataræði, hreyfingu og svefn.

Að fyrirlestri loknum buðu hjúkrunarfræðingar heilsugæslunnar upp á mælingar á blóðþrýstingi og blóðsykri.

HeilsuvGRI2

Flensubólusetning hafin á HSS

Bólusetningar gegn inflúensu á HSS hófust, föstudaginn 21. september. Tímabókanir eru í síma 422-0500, virka daga milli kl. 9 og 16.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:
• Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
• Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
• Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
• Þungaðar konur.

Ofangreindir hópar fá bólusetningu sér að kostnaðarlausu, borga aðeins komugjald.

Inflúensa getur verið skæður sjúkdómur, einkum hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma og hefur sóttvarnalæknir áður hvatt þá sem eru í þeim áhættuhópi til að láta bólusetja sig.

Læknar HSS hafa tekið saman þessar ábendingar:
Inflúensa lýsir sér oftast með háum hita og beinverkjum, oft með höfuðverk og þurrum hósta. Sumir fá einnig sára hálsbólgu og stundum eru til staðar einkenni frá meltingarfærum. Verstu einkennin ganga yfir á 2 til 3 sólarhringum og undantekningalítið jafnar fólk sig án nokkurra vandkvæða. Ekki er til lækning við inflúensu en almenn verkjalyf svo sem parasetamól og bólgueyðandi lyf svo sem íbúfen geta mildað einkenni mikið.

Til eru veirulyf sem draga úr einkennum svo sem tamiflu og relenza, sérstaklega ef þau eru gefin strax en flestir jafna sig fljótt og vel án nokkurra inngripa og eru að fullu frískir á ca. viku.

Inflúensa er gríðarlega smitandi og því er áríðandi að fólk takmarki eins og unnt er samskipti við annað fólk meðan á veikindum stendur og gæti sérstaklega að handþvotti og öðru hreinlæti. Almennt er ráðlegt að halda sig heima við í að minnsta kosti viku í kringum einkenni, bæði til að ná að jafna sig og til að draga úr útbreiðslu flensunnar.

Aldrei er of seint fyrir fríska einstaklinga að bólusetja sig við inflúensu, bólusetningin minnkar líkur á smiti um ca. 60% og þeir sem eru bólusettir en veikjast fá yfirleitt mun vægari einkenni. Ekki er hægt að fá flensu gegnum bólusetningu.

Til að draga úr álagi á vaktþjónustu HSS og draga úr útbreiðslu smits biðjum við fólk að íhuga fyrrgreind atriði áður en leitað er til heilsugæslunnar. Símaþjónusta HSS (422-0500) er ávallt boðin og búin að veita ráðleggingar og aðstoða fólk án þess að það komi á staðinn.

Persónuverndarstefna HSS samþykkt

personuvernd

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja samþykkti nýlega persónuverndarstefnu fyrir stofnunina, sem hefur nú verið birt hér á vefnum.

Með henni er leitast við að uppfylla í hvívetna þá persónuverndarlöggjöf sem er í gildi hverju sinni og er stefna þessi byggð á persónuverndarlögum nr. 90/2018 frá 15. júlí 2018. Með stefnu þessari leggur HSS áherslu á mikilvægi þess að gætt sé að því að öll vinnsla persónuupplýsinga innan HSS fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Stefnan gildir um sérhverja vinnslu persónuupplýsinga HSS.

Í persónuverndarstefnunni eru meðal annars ákvæði um söfnun, vinnslu, öryggi og dreifingu persónuupplýsinga á HSS, sem og réttindi einstaklinga til eigin persónuupplýsinga í vörslu HSS.

Smellið hér til að lesa Persónuverndarstefnu HSS.

Kristjana E. Guðlaugsdóttir nýr starfsmannastjóri á HSS

Kristjana E. Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin sem starfsmannastjóri hjá HSS.

Kristjana (Jana) kemur til okkar frá Pennanum þar sem hún hefur sinnt starfi launafulltrúa og gjaldkera. Þar áður starfaði hún á skrifstofu Ístaks, í Tosbotn, í Noregi og sinnti þar ýmsum starfsmannamálum, sem og almennum skrifstofustörfum. Hún hefur einnig starfað sem starfsmannastjóri Skólamatar í námsleyfi þáverandi starfsmannastjóra.

Jana hefur lokið BSc. prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur einnig lokið skjalfestu námi í mannauðsstjórnun hjá Endurmenntun HÍ. Þessi misserin sinnir hún mastersnámi við Háskólann á Bifröst og mun útskrifast með meistaragráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun vorið 2019.

Hún er gift Erlingi J. Leifssyni, byggingaverkfræðingi og býr í Reykjanesbæ.

Við bjóðum Jönu velkomna í hópinn.

Bóluefni fyrir lifrarbólgu A og B komið aftur

vaccin anti grippeAthygli er vakin á því að Twinrix, tvígilt bóluefni við lifrarbólgu A og B, er nú aftur fáanlegt á landinu og því hægt að bóka tíma aftur í ferðamannabólusetningar hjá hjúkrunarmóttöku HSS.

Tímabókanir eru í síma 422-0500 á milli 8 og 16.

Subscribe to this RSS feed