Heimahjúkrun

Heimahjúkrun veitir þjónustu alla daga frá 8:00-23:30.

Hlutverk heimahjúkrunar er að veita einstaklingsmiðaða hjúkrun þar sem forvarnir, heilsuvernd, heilsuefling, fagleg þekking og samstarf eru höfð að leiðarljósi.

Einstaklingshæfð heimahjúkrun er sérsniðin að þörfum hvers og eins. Markmið heimahjúkrunar er að styðja einstaklinga að ná líkamlegri og andlegri færni og gera þeim þannig kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi og/eða skerta færni.

Umsókn um heimahjúkrun þarf að berast skriflega frá heilbrigðisstarfsfólki, heimilislækni, læknum eða hjúkrunarfræðingum. Mikilvægt er að tilgreina tilefni umsóknarinnar, sjúkdómsgreiningu/ar og hjúkrunarvandamál.

Heimahjúkrun er í flestum tilfellum tímabundin þjónusta og veitt meðan þörf er á hjúkrun. Gert er ráð fyrir að þjónustan hætti þegar meðferð lýkur, heilsufarsleg vandamál hafa verið leyst eða þeim komið í viðunandi horf.

Heimahjúkrun felur hvorki í sér fasta viðveru eða yfirsetu né sinnir hún heimilisstörfum eða útréttingum fyrir þá sem hún þjónar.

Heimahjúkrun er veitt án endurgjalds. Skjólstæðingum ber þó að útvega og greiða fyrir ýmis hjálpartæki og áhöld sem hann þarf á að halda samkvæmt reglum Sjúkratrygginga Íslands[MBH1] .

Hjúkrunarfræðingur skipuleggur þjónustuna í samvinnu við skjólstæðing og aðstandendur.

Þjónusta Heimahjúkrunar er margvísleg, svo sem:

1.    Stuðningur, lyfjaeftirlit og / eða böðun: Einstaklingar sem þurfa stuðning, eru t.d. óöruggir og / eða kvíðnir, en eru að mestu sjálfbjarga.

2.    Sérhæfð hjúkrun: Einstaklingur sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar, s.s. sárameðferð, sýklalyfjagjöf og hjartabilunareftirlit og komast ekki á heilsugæslu vegna líkamlegrar skerðingar.

3.    Heildræn hjúkrunarmeðferð  og / eða líknarmeðferð vegna langvinnra og ólæknandi sjúkdóma: Einstaklingur sem þarfnast líknarþjónustu og / eða víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag vegna langvinnra og ólæknandi sjúkdóma.


Hvernig er hægt að panta tíma/viðtal: 

Hægt er að panta símtal og koma skilaboðum til starfmanna virka daga milli 8:00-16:00 í síma 422-0620

Utan dagvinnutíma, frá 16:00-23:30 og um helgar er svarað í vaktsíma 860-0140.


Símanúmer deildar:

Afgreiðsla/ritari svarar fyrir heimahjúkrun frá 08:00-16:00 í síma 422-0620. Frá 16:00-23:30 er hægt að ná í starfsmann í síma 860-0140.

Afboðun vitjana

08:00-16:00 í síma 422-0620

16:00-23:30 í síma 860-0140

Vinnuumhverfi heimahjúkrunar
Starfsemi heimahjúkrunar fer fram á einkaheimilum og fellur undir lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (2. gr. laga nr. 46/1980).

Atvinnurekanda ber að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á þeim stað þar sem starfsmaðurinn starfar.

Reyklaust umhverfi og gæludýr
Starfsfólk heimahjúkrunar á fullan rétt á því að vinna í reyklausu umhverfi, fólk er beðið að virða það. Ætlast er til að gæludýr séu ekki laus á meðan starfsfólk heimahjúkrunar er í vitjun.

Hjálpartæki / Velferðartækni
Rétt hjálpartæki þurfa að vera til staðar og sjá starfsmenn heimahjúkrunar um að meta þörf fyrir hjálpartækjum/velferðartækni.

Skapist aðstæður inni á heimili að öryggi skjólstæðingsins eða starfsfólks heimahjúkrunar sé ógnað, t.d. vegna óreglu eða ofbeldis, eru tafarlaust gerðar viðeigandi ráðstafanir. Fresta getur þurft hjúkrunarþjónustu á meðan leitað er eftir viðeigandi ráðgjöf og aðstoð.

Lyf og lyfjaendurnýjun
Lyfjatiltekt og heimsending lyfja er á vegum lyfjabúða. Ef skjólstæðingur þarf aðstoð eða eftirlit með lyfjatöku er gerð krafa um lyfjaskömmtun frá lyfjaverslun og að starfsmenn heimahjúkrunar hafi aðgang að lyfjunum í lyfjaskáp inni á viðkomandi heimili.

Lyfjaendurnýjun fer í gegnum lyfjaendurnýjun á heilsugæslu eða heimilislækni eftir því sem við á. Hægt er að óska eftir aðstoð heimahjúkrunar í undantekningatilfellum.

Samstarf
Samtarf er á milli heimhjúkrunar og annarra deilda innan Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem og annarra heilbrigðisstofnana. Heimahjúkrun vinnur einnig í náinni samvinnu við félagslega heimaþjónustu og þá aðila sem sinna öldrunarþjónustu á svæðinu.