Stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi

Stefna þessi og viðbragðsáætlun er sett á grundvelli 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni kynbundið ofbeldi og ofbeldi á vinnustöðum.  

Viðbragðsáætlun við einelti og annarri sálfélagslegri áreitni gildir fyrir allar starfsstöðvar HSS. Það er stefna HSS að starfsmenn vinni í anda samstarfs og sýni þannig samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og önnur sálfélagsleg áreitni, svo sem; kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi og ofbeldi verða undir engum kringumstæðum umborin. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum er jafnframt fordæmd.  

HSS skal koma í veg fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun í starfi stofnunarinnar með forvörnum og virkri viðbragðsáætlun.  

Skilgreiningar: 

Skilgreining HSS á einelti, kynbundnu áreitni, kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi á vinnustöðum er í samræmi við ofangreindar reglugerð og lög. 

Einelti: 

Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. 

Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna falla ekki hér undir. 

Kynbundin áreitni: 

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.  

Kynferðisleg áreitni: 

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og eða líkamleg

Kynbundið ofbeldi:

Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamslegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einallífi og á opinberum vettvangi. 

Ofbeldi: 

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.