Um helgina hófst í Kringlunni ljósmyndasýsningin Er komið að skimun hjá þér? Sýningin er hluti af hvatningarátaki Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um mikilvægi skimana fyrir leghálskrabbameinni. Tólf konur úr íslensku samfélagi leggja átakinu lið og deila persónulegum sögum af leghálsskimun.
Þátttaka kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini hefur farið minnkandi síðustu ár. Eftir flutning skimana fyrir leghálskrabbameini til heilsugæslunnar í upphafi síðasta árs komu upp vandkvæði sem nú hafa verið leyst. Þau sneru helst að löngum biðtíma eftir niðurstöðu leghálssýna sem send voru til Danmerkur. Landspítali hefur nú tekið við rannsókn sýnanna og verður flutningurinn framkvæmdur í þrepum út þetta ár. Í dag er biðtími eftir niðurstöðu rannsóknanna allt að 40 dagar, en í mörgum tilfellum líða þó aðeins 1-2 vikur. Þetta er sami biðtími og konur gátu reiknað með hjá Krabbameinsfélaginu.
„Við erum komin á allt annan og betri stað í dag en fyrir ári síðan, enda höfum við lagt mikla vinnu í að koma þessari mikilvægu þjónustu í það horf sem hún á að vera í. Við munum að sjálfsögðu halda ótrauð áfram að bæta þjónustuna, bæði hvað varðar upplýsingar um skimunina og þá þjónustu sem veitt er. Nú er stóra verkefnið hins vegar að fá konur til að mæta í skimun og þess vegna blásum við til sóknar í þeim efnum,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana.
Þegar Heilsugæslan tók við leghálsskimunum í ársbyrjun 2021 var HPV frumskimun innleidd eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Talið er að um 80% kvenna smitist af HPV veirunni einhvern tímann á ævinni. Fylgst er sérstaklega með konum sem smitast af HPV. Sé sýkingin viðvarandi aukast líkur á forstigsbreytingum og síðar krabbameini sé ekkert að gert. Veiran smitast helst við samfarir en ónæmiskerfi líkamans getur losað sig við hana án nokkurra afleiðinga á nokkrum mánuðum.
Í hópi kvennanna sem styðja átakið með þátttöku sinni í ljósmyndasýningunni eru Eliza Reid, forsetafrú, Brynhildur Guðjónsdóttir, Borgarleikhússtjóri, Þuríður Sigurðardóttir, söngkona og Ebba Katrín Finnsdóttir, leikkona. Sýningin stendur út febrúarmánuð í Kringlunni en hana og sögur allra kvennanna má einnig finna á síðu Samhæfingarstöðvarinnar sem er á hér á vefnum.. Bolir með merki sýningarinnar eru til sölu á netinu og í völdum verslunum. Nánari upplýsingar er að finna á vef Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana.
„Við hvetjum alla til að skoða sýninguna í Kringlunni eða á vefnum. Um leið hvetjum við konur að panta tíma þegar boð um skimun berst,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana.
Hægt er að panta tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í síma 422-0500
422-0500
422-0750
1700
112