Til að byrja með vil ég þakka ykkur kærlega fyrir góðar móttökur í starfi mínu sem forstjóri HSS, ég hlakka til samstarfsins og gera Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að heilbrigðisstofnun til fyrirmyndar.
Við höfum þegar hafið vinnu við stefnumótun stofnunarinnar en hún snýst um að skilgreina gildi, framtíðarsýn, markmið og þær aðgerðir sem þarf til að ná árangri. En stefnan snýst ekki hvað síst um þarfir samfélagsins sem við þjónum og að skjólstæðingurinn er í fyrsta sæti, alltaf. Mikilvægt er að styðja við og styrkja ímynd og traust til stofnunarinnar. Ætlunin er að móta stefnu fyrir starfsemina fyrir næstu þrjú árin. Við munum gera grein fyrir mælikvörðum og viðmiðum sem verða lögð til grundvallar mati á árangri starfseminnar. Stefnan verður síðan staðfest af heilbrigðisráðherra og kynnt á afmæli stofnunarinnar í nóvember, meira um það síðar.
Stofnaðir hafa verið stýrihópar í verkefninu og er hlutverk þeirra að hlusta á baklandið, fá hugmyndir. Einnig hef ég sent tölvupóst á alla starfsmenn og leitað eftir skoðunum frá ykkur um starfið og starfsumhverfið. Ég fengið mikil viðbrögð og þakka kærlega fyrir það, mjög mikilvægt í vinnunni fram undan. Takk fyrir boðin á deildarfundina, frábært að heyra í ykkur og taka samtalið.
Í undirbúningi eru íbúafundir sem verða 5. júní í Hljómahöllinni þar sem íbúum gefst tækifæri til að taka þátt, greina hvað er vel gert, hvað má bæta og hvernig íbúar sjá þjónustu HSS til framtíðar. Um er að ræða tvo fundi annar á íslensku og hinn á ensku, sjá meðfylgjandi auglýsingu í Víkurfréttum. Töluverð greining hefur verið gerð á starfsumhverfinu og nokkrum ákvörðunum hefur þegar verið ýtt úr vör
Vil minna starfsfólk HSS á að þann 7. júní kl. 15 verður fjölskylduhátíð í Skrúðgarðinum. Þar verður grillað og ég hvet ykkur til að mæta með börnin og barnabörnin og eiga góða stund saman.
Kveðja,
Guðalug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS
422-0500
422-0750
1700
112